Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 12:39:12 (4439)


[12:39]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er málið á síðustu stigum þinghalds á þessum vetri og ljóst að það getur ekki hlotið afgreiðslu nema um það náist góð samstaða svo að málið fari í gegn og verði að lögum á þeim skamma tíma sem eftir er. Ráðherrann hefur kynnt hugmyndir um breytingar á frv. sem liggur fyrir sem eru ætlaðar til þess að greiða fyrir því að samkomulag náist af þessu tagi. Mér sýnist að þær breytingar sem ráðherrann hefur þegar kynnt séu fyrst og fremst afrakstur samkomulagsvinnu á milli stjórnarflokkanna og sú staðreynd að ekki hefur verið mælt fyrir málinu fyrr en nú upp úr miðjum febrúar, tæplega tveimur mánuðum eftir að það var lagt fram, hlýtur að skýrast af því að einhver ágreiningur hefur verið milli stjórnarflokkanna um einstök efnisatriði. Þeir hafa að mínu viti eftir að hafa hlýtt á ræðu ráðherrans náð samkomulagi um þessi ágreiningsefni og ég vil segja fyrir mitt leyti að ég er tilbúinn til þess að stuðla að því eftir því sem föng eru á að greiða götu frv., a.m.k. þeirra atriða sem menn ná sæmilegri sátt um og mér sýnist að mjög margt í þessu frv. sé þess eðlis að ég geti fellt mig við það og staðið að því að það hljóti framgang. Ég vil a.m.k. láta það koma fram af minni hálfu og þingflokks míns að við erum tilbúnir til að standa að því að leitast við að ná lausn á málinu með þessum hætti.
    Það er ekki nýlunda, verð ég að segja, að fyrir þingið séu lögð stjfrv. um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég lét áðan taka saman fyrir mig yfirlit yfir breytingar eða stjfrv. sem lögð hafa verið fram um breytingar á þessum lögum í tíð Alþfl. frá því að hann fékk félmrn. 1987. Það kemur í ljós að þetta stjfrv., sem hér er flutt, er sextánda frv. til breytinga á þessum lögum og mörg af þessum frumvörpum hafa verið mjög veigamikil og gríðarlega efnismiklar breytingar þar á ferðinni. Segja má að búið sé að umturna löggjöfinni með þessum 16 frumvörpum og þar af hafa 15 verið afgreidd á Alþingi.
    Í þessu 16. frv., svo merkilegt sem það er, sem kannski kemur okkur ekki mjög á óvart sem höfum fylgst með þessu starfi á undanförnum árum er allmikið af efni frv. fólgið í því að leiðrétta gerðir í fyrri stjfrv. og lögum sem síðar urðu. Verið er að gera breytingar sem taka til baka ýmislegt af því sem félmrh. Alþfl. hafa keyrt fram, sumt af því í verulegum ágreiningi og eru nú að sjá að sér að það verður að breyta lögunum til samrýmis við gagnrýni sem fer þá fram og m.a. eru breytingar hér sem eru til samræmis við þá gagnrýni sem ég setti fram á stjfrv. eftir að ég tók hér sæti. Þar á ég einkum við breytingar á lögunum til 1991 og síðar.
    Um einstök efnisatriði málsins vil ég fjalla lítillega. Ég vil fyrst segja það að ég fagna breytingunni sem er í 1. gr. frv. um að breyta lánveitingum til almennra kaupleiguíbúða þannig að í stað þess að veita tvö lán, annað 70% og hitt 20%, verði hér eftir veitt eitt lán sem er 90%. Ég minni á að við afgreiðslu á stjfrv. fyrir tveimur árum, 1993, lagði ég einmitt fram brtt. sem var nánast samhljóða þessari og fól í sér að breyta lánveitingum til almennra kaupleiguíbúða á þennan veg. Ástæðan var augljós. Þau tvö lán, sem voru lánuð til almennra kaupleiguíbúða, voru með þannig kjörum og lánstíma að greiðslubyrðin var mjög þung meðan var verið að greiða niður 20% lánið sem var 5 ár. Nauðsynlegt var að breyta þessu

ef unnt átti að vera að selja þessar íbúðir. Því miður höfnuðu stjórnarliðar og þáv. félmrh. þeirri tillögu en tóku síðar upp þá breytingu að lengja 20% lánið í 25 ár. Núna er skrefið stigið til fulls og lögð fram sams konar tillaga að efni til og ég flutti fyrir tveimur árum og stjórnarliðið þá gat ekki sætt sig við, en hefur nú greinilega séð að tillagan á þeim tíma var réttmæt og tekur hana upp. Ég fagna því að sjálfsögðu þegar stjórnarliðar ganga í smiðju til okkar stjórnarandstæðinga og sækja þangað hugmyndir og tillögur til að flytja í sínum frumvörpum, þótt ég geti ekki látið hjá líða að láta það koma fram af minni hálfu að ég teldi það betra að þeir tækju mark á okkur strax.
    Þá er líka önnur breyting í þessu frv. sem er mjög veigamikil í raun og það er ákvæðið um fyrningu íbúðanna eða afskriftir að lækka hana úr 1,5% niður í 1% sem hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir íbúa þessara íbúða því hún lækkar kostnaðinn við að búa í íbúðunum verulega. Hún skiptir líka verulegu máli fyrir sveitarfélögin og auðveldar þeim þar með að selja íbúðirnar og finna kaupendur sem geta staðið undir þeim. Hún tekur í raun aftur breytingu sem gerð var með stjfrv. 1990 ef ég man rétt og var þá lögð mikil áhersla á að hækka afskriftir upp í 1,5%, talið að annars mundi kerfið ekki ganga fjárhagslega upp en sem betur fer hefur félmrh. nú áttað sig á því að þetta byggðist ekki á réttum rökum og reynist nauðsynlegt að breyta þessu og að sjálfsögðu er ég sammála því og stend að því að afgreiða það mál hér.
    Þriðja efnisatriðið sem er í raun verið að taka aftur þar sem stjórnarliðið áður hefur ákveðið í fljótræði er að það er að nokkru leyti gengið til baka að innheimta 3,5% skatt á hlutafélögin fyrir íbúðir eða nýbyggingar fjármagnaðar úr Byggingarsjóði verkamanna. Það var tekið upp fyrr á þessu kjörtímabili, líklega fyrir tveimur og hálfu ári eða svo í frv. tengdu afgreiðslu fjárlaga að láta sveitarfélögin borga 3,5% af byggingarkostnaði hverrar íbúðar sem skatt til Húsnæðisstofnunar. Þessi skattheimta var auðvitað mjög umdeild og að mínu viti greiddi hún ekki fyrir uppbyggingu kerfisins eins og nauðsynlegt hefði verið og menn eiga auðvitað í þessari stöðu að gæta að því að breytingar gangi ekki gegn tilgangi laganna sem er auðvitað að byggja upp félagslegt húsnæði og það skýtur skökku við ef menn eru að gera breytingar sem torvelda framkvæmdarvaldinu, sveitarfélögunum, og ráðuneytinu að ná því markmiði. Nú er að nokkru leyti gengið til baka með þessa skattheimtu, þó ekki stórt skref, en það er þó í áttina og í því felst viðurkenning á því að hér er um alvarleg mistök að ræða af hálfu stjórnarliðsins á þeim tíma.
    Sú breyting sem er verið að gera er að 3,5% framlagið vegna íbúða sem aðrir standa að að byggja en sveitarfélagið sjálft verður nú hér eftir, ef ákvæðið nær fram að ganga, háð samþykki sveitarstjórnar og það er auðvitað grundvallaratriði að útgjöld úr sveitarsjóði séu fyrst og fremst ákvörðuð af sveitarstjórn en ekki öðrum aðilum og það hefur kannski verið það allra versta við þetta 3,5% ákvæði að aðrir aðilar hafa ákveðið eða ákvarðað útgjöld úr sveitarsjóði. Með því að húsnæðismálastjórn hefur úthlutað framkvæmdaheimildum til félagasamtaka, þá hefur í þeirri ákvörðun falist útgjöld úr sveitarsjóði þeirra sveitarfélaga það sem byggt hefur verið. Það er stjórnsýslulega óviðunandi að búa við slíka löggjöf og ég veit að félmrh. hlýtur að vera það þungbært að hafa þurft á sínum tíma að standa að þessu, sérstaklega í ljósi þess að félmrh. er jafnframt yfirmaður sveitarstjórnarmála. Ég fagna því nú að það skuli þó gerð sú breyting að útgjöldin sem felast í 3,5% skattinum skuli háð samþykki sveitarstjórnar. Ég tel það eiginlega grundvallaratriði að menn viðurkenni rétt sveitarstjórnarinnar til að ráðstafa sínum fjármunum í verkefni sem því ber að sinna.
    Eins og fram kemur í frv. og greinargerð með því er býsna margt annað af breytingum í þessu frv. og reyndar miklu meira en hægt er að taka fyrir í 1. umr. málsins þannig að ég verð að sleppa ýmsu af efnisatriðunum og geyma mér það til síðari tíma að fjalla um þau atriði. En ég vil þó nefna tvennt sem mér finnst óhjákvæmilegt að fjalla lítillega um. Það er fyrst fyrirhuguð breyting á skipan húsnæðisnefndanna á þann veg að setja út fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur gefið út yfirlýsingu um það að þessi breyting verði dregin til baka og núverandi skipan verði látin standa.
    Ráðherrann nefndi í sínu máli að á móti þessu kæmi sú tillaga að sveitarstjórnin kysi formann nefndarinnar. Ég geri ekki ágreining um þá tillögu og sé ekkert athugavert við það í sjálfu sér að sveitarstjórn skipi formann nefnda þannig að af minni hálfu er engin fyrirstaða í því að þetta mál nái fram að ganga. En ég ítreka og undirstrika af minni hálfu að ég tel algert grundvallaratriði að viðhalda tengslunum á milli félagslega íbúðakerfisins og verkalýðshreyfingarinnar. Ég var mjög andvígur því á sínum tíma þegar fulltrúum launþegasamtakanna var hent út úr húsnæðismálastjórn og tel reyndar að reynsla sem fengin er eftir að það var gert færi mér a.m.k. sönnun þess að það hafi verið óskynsamleg ákvörðun. Það var verulegt gagn af fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar í húsnæðismálastjórn og ég mundi verða þess fýsandi að menn gengju til baka hvað það varðar.
    Hitt atriðið sem ég vil fjalla um er sú breyting að færa ábyrgðina meira til sveitarfélaganna eins og það heitir. Þetta er auðvitað sígilt verkefni að taka ákvörðun um stjórnsýslulega hvernig verkefnin skiptast milli ríkisvalds annars vegar og sveitarfélaga hins vegar og hvernig ábyrgð skiptist í samræmi við það. Með lögunum 1990 varð sú grundvallarbreyting að ríkisvaldið eða félmrn. í raun afsalaði sér forræði þess máls að fara með félagslega íbúðakerfið í sveitarfélögunum eins og hafði verið fram til þessa með svonefndum stjórnum verkamannabústaða sem var samstarfsvettvangur verkalýðshreyfingar, sveitarfélags og ríkis en á ábyrgð ríkisvaldsins. Í staðinn voru teknar upp svonefndar húsnæðisnefndir sem störfuðu á ábyrgð sveitarfélaga.

    Mér finnst að menn verði að gera rækilega upp við sig hvorum megin hryggjar menn vilja liggja í þessu máli. Menn geta ekki haft málin báðum megin og óljósa skiptingu ábyrgðar eins og nú er. Þegar menn færðu málaflokkinn til sveitarfélaga eins og sagt var árið 1990 þá var það ekki nema að nafninu til í meginatriðum vegna þess að menn skildu eftir fjármálin hjá ríkinu. Og þetta mál er ekki verkefni eða á forræði sveitarfélaga eins og málin standa í dag með sérstakri ríkisstofnun sem sér um að úthluta framkvæmdaheimildum og fjármagninu á hverju einasta ári. Enn fremur er það þannig að það er á höndum þessarar ríkisstofnunar að samþykkja og úthluta fé vegna innlausnar, endurbóta o.s.frv. Og meðan menn hafa það kerfi þá gengur hitt afar illa upp að vera að láta sveitarfélögum eftir að taka ákvarðanir um útgjöld þegar tékkheftið er hér áfram í Reykjavík. Það er svo mótsagnakennt að í því felast árekstrar á milli aðila sem eiga að framkvæma þetta og getur ekki endað á annan veg en að ríkisstofnunin meira og minna ráði málinu og í meira og minna ósamkomulagi við þá sem vilja hins vegar ráða og telja sig eiga að ráða, þ.e. sveitarstjórnarmennina. Mér finnst að menn eigi að vera með þetta á öðrum hvorum vettvanginum til fullnustu eða þá ef hægt er að skapa sameiginlegan vettvang ríkis og sveitarfélaga fyrir málaflokknum. Því hef ég nokkuð velt fyrir mér og tel vel framkvæmanlegt að sveitarfélögin og ríkisvaldið stæðu sameiginlega að þessum málaflokki og með ákveðnum breytingum á þeirri ríkisstofnun sem fyrst og fremst sér um þennan málaflokk. En það er of langt mál að fara út í þær vangaveltur hér, en vandinn í því kerfi sem við höfum núna kemur m.a. fram í frv., að menn ætla að láta sveitarfélögin sjá um að úthluta íbúðunum eftir reglum sem eru ákvarðað miðstýrt og fjármagnið sem á að fylgja er líka ákvarðað miðstýrt. Ég held að menn átti sig á því þegar menn hugsa þetta að þetta verður afar skrýtið í framkvæmd og þessi breyting sem lögð er til er mjög vandræðaleg og leysir ekki úr þeirri sjálfheldu sem stjórnsýsluþáttur málsins er í.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, af því að ég sé að tíma mínum er að verða lokið aðeins víkja að fjármálum stofnunarinnar eða öllu heldur því fjármagni sem veitt er í þennan málaflokk. Það hefur verið stefnan á undanförnum árum að veita framkvæmdaheimildir fyrir 500 íbúðir árlega. Nú hefur verið gerð sú breyting að fjárframlag frá ríkissjóði hefur verið skorið verulega niður auk annarra breytinga sem þrengja stöðu sjóðsins sem úthlutar þannig að á þessu ári er ljóst að það verður ekki unnt að úthluta nema um 130--140 framkvæmdaheimildum í stað 500 áður. Og það væri fróðlegt að fá svör ráðherra við því hvað ríkisstjórnin hyggst gera til þess að mæta þessum mikla niðurskurði eða hvort þetta eru í reynd áform ríkisstjórnarinnar að skera svona mikið niður.