Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:13:20 (4450)


[14:13]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Já, þetta er auðvitað alveg rétt og ég geri ráð fyrir að við hv. 11. þm. Reykv. séum sammála um að þetta sé nokkuð mikið vandamál. Það er alveg rétt hjá honum að það eru launin sem eru kannski undirrót alls þessa. Það er verið að velja fólk í þessar íbúðir sem er á lægstu laununum til þess að það svari þeim kröfum sem gerðar eru um þá sem fá íbúðirnar. Sannleikurinn er sá að það láglaunafólk stendur ekkert undir greiðslunum. Núna er ástandið orðið þannig að það verður að velja fólk sem hefur haft mjög lág laun síðustu þrjú árin til að fá þessar íbúðir og jafnframt með það í huga að það fólk geti aukið tekjur sínar verulega á næstu árum. Þannig er nú staðreyndin orðin í dag og þegar fólk þarf að fara þannig í kringum þetta kerfi þá er það ekki réttlátt.