Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:16:37 (4452)


[14:16]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi frv. sjálft sem hér liggur fyrir þá var ég ekki á nokkurn hátt í minni ræðu að koma í veg fyrir að það gæti orðið að lögum. Ég benti á að það væri margt í frv. sem ég tel til verulegra bóta og er tilbúinn til samstarfs um þá hluti og að koma því í gegnum þingið.
    Að skuldaaukning heimilanna sé af hinu góða fer eftir því hvernig sú skuldaaukning er komin til, hæstv. félmrh.
    Þegar svo er komið að einstaklingar fá ráðgjöf frá hinu opinbera að þeir geti greitt af svo og svo háu láni, hafi þeir þetta í tekjur, verði skattarnir þessir, hafi þeir þessar barnabætur, hafi þeir þessar vaxtabætur þá sé þeim óhætt að fjárfesta í viðkomandi íbúð, taka viðkomandi lán. Síðan þegar ríkisstjórnin sem núv. hæstv. félmrh. ber ábyrgð á og öllum hennar gerðum ásamt núv. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, formanni Þjóðvaka, fyrrv. hæstv. félmrh., gengur þannig fram að lækka vaxtabæturnar, lækka barnabæturnar, hækka skattana og auka álögurnar á heimilin í gegnum menntamálin og í gegnum húsnæðismálin þá er sú skuldaaukning sem þannig verður til ekki af hinu góða. Vegna þess að það er þessi skuldaaukning sem er að setja heimilin út í gjaldþrot og það verður að koma í veg fyrir. Það verður ekki gert nema menn grípi til greiðsluaðlögunar og mikilla og viðvarandi skuldbreytinga í húsnæðiskerfinu.