Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:22:58 (4455)


[14:22]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. getur ekki undrast það að ræðumenn hafi áhyggjur af því að hér sé frekar um sýndarplagg að ræða en raunverulegan vilja hæstv. ríkisstjórnar til þess að gera bragarbót á ýmsum atriðum er varða húsnæðismál og einkum vanda þeirra sem eiga í erfiðleikum. Ég ætla út af fyrir sig ekki að efast um góðan hug hæstv. félmrh. en ég tel að í þeim félagsskap sem hún hefur verið, í bland við tröllin, hafi hún ekki mátt sín mikils og því miður sé þessi ríkisstjórn bæði vanbúin, vanhæf og viljalaus til þess að taka raunverulega á þeim vandamálum sem upp hafa komið varðandi okkar húsnæðiskerfi. Þar er fyrst og fremst um að ræða það kerfi sem við erum með og þau vandamál sem upp hafa komið vegna þröngrar stöðu heimilanna nú. Þær fjölskyldur sem hafa samkvæmt ráðgjöf reynt að koma sér upp húsnæði með einum eða öðrum hætti hafa lent í stórfelldum greiðsluvanda. Jafnvel þótt þær hafi haft þokkalegan möguleika á því að afla sér tekna þá er um mjög mikla og dýra fjárfestingu að ræða á Íslandi og það er einfaldlega þannig að það þarf miklar tekjur til að mæta henni. Þegar ofan á það er skattaánauð, launastefna, sem við munum ræða frekar síðar í dag, launastefna svoleiðis fyrir neðan allar hellur að hér er í rauninni hvorki hægt að lifa né deyja á þeim launum sem eru látin viðgangast, þar að auki skerðing á vaxtabótum, kostnaðarhækkanir, skerðing á barnabótum og eitt og annað slíkt þá sjáum við að sjálfsögðu fram á það að fólk er í stórfelldum vanda jafnvel þótt það hafi möguleika á að afla sér tekna. En hver er þá staða þeirra sem eru atvinnulausir og hafa orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu?
    Ég veiti því athygli að í 25. gr. frv. er komið efnislega nákvæmlega það frv. sem sú sem hér stendur flutti ásamt öðrum kvennalistakonum og mælti fyrir 2. febr. sl. --- og vona ég nú að hæstv. félmrh. fylgist með þótt úr hliðarherbergi sé. Þetta frv. sem er að finna á þskj. 332, og því miður var ekki hægt að mæla fyrir fyrr en 2. febr. sl., tekur á nákvæmlega sömu málum og ég held að það sé óhjákvæmilegt að a.m.k. þessi hluti þessa frv. komist í gegn. Ég bendi hæstv. félmrh. á að ef hennar frv. kemst ekki í gegnum þingið á þeim skamma tíma sem nú er eftir er a.m.k. hægt að samþykkja það frv. sem við kvennalistakonur fluttum og taka á vanda þeirra sem allra versta stöðu hafa, þ.e. þeim sem hafa lent í því að vera metnir upp í vöxtum vegna tímbundinnar tekju- eða eignaaukningar en standa síðan frammi fyrir því að tekjur rýrna þannig að vanskilin verða mikil og fólk er að borga hærri vexti og nýtur ekki þeirra kjara sem er þó boðið upp á í félagslega kerfinu þrátt fyrir að það búi við þær aðstæður að það ætti að vera á lægri vöxtunum.
    Frv. okkar kvennalistakvenna tekur á svo mikilvægu atriði að ég held að ég hljóti að verða að fara fram á það að ef þetta frv. sem hér um ræðir fer ekki í gegn þá verði okkar frv. samþykkt. Ég hef áhyggjur af því að það muni ekki fara í gegn fyrst og fremst vegna þess að það er mjög seint fram komið, hér um bil mánuði á eftir frv. okkar kvennalistakvenna og reyndar töluvert lengra ef það er miðað við hvenær frv. var lagt fram en mælt fyrir því síðan tveimur vikum seinna. Engu að síður höfum við haft möguleika á því að fjalla um það frv. nú þegar í hv. félmn. og ég vona svo sannarlega að það hafi verið gert sómasamlega, að þingmannafrv. fái umfjöllun þar. Ég held að þetta sé algerlega óhjákvæmilegt því að hér er verið að tala um slíkan bráðan og brýnan vanda að það er ekki hægt að horfa fram hjá honum.
    Í framsögu minni með nefndu frv. kom fram að hér væri um að ræða um það bil 40% af þeim sem hefðu verið metnir upp í vöxtum og borguðu nú hærri vexti sem væru í vanskilum núna. Þetta segir okkur að þetta fólk er ekki borgunarfólk fyrir þessum háu vöxtum og fyrir því eru ýmsar ástæður. Ég fagna því að í 25. gr. frv. er tekin sú ákvörðun að hætta að láta eignamörk vega og einungis litið á tekjumörk. Ég held að það verði að líta á það sem raunhæft, einkum í ljósi þess sem fram kemur í greinargerð með frv., að þetta bitnar oft mjög illa á ellilífeyrisþegum og öðrum slíkum sem kannski eftir langa hríð eru búnir að koma sér upp einhverjum eignum en hafa sáralitlar eða engar tekjur, hafa kannski farið í einhvers konar íbúðaskipti og átt rétt á því og sitja svo í súpunni og verða að eyða sínum elliárum í eilíft bras þannig að þetta tel ég að sé til bóta. Ég er alveg reiðubúin til þess að gera þær breytingar á frv. okkar kvennalistakvenna sem yrðu til þess að gera þessar greinar algerlega samhljóða því að ég er sammála þeim viðbótaráherslum sem þarna sjást.
    Í þessum endurbótum er jafnframt talað um það í 25. gr. þessa frv., sem hér er til umræðu, að skattstjóra sé skylt að láta Húsnæðisstofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd vaxtabreytinga samkvæmt þessari grein og það finnst mér alveg sjálfsagt mál og er líka reiðubúin til að taka það inn í mitt frv. ef það mætti verða til þess að alla vega þessi efnisatriði næðu í gegn. En mér þykir það mjög hart að það skuli núna á allra seinustu dögum þingsins loksins koma viðbrögð við þessum málum. Ég lagði fram mitt frv. í byrjun desembermánaðar og það mátti vera ljóst og var búið að benda á að á þessu brýna verkefni þyrfti að taka og á því þyrfti að taka fljótt. Þarna er um slíkt réttlætismál að ræða að ég trúi því ekki að nokkur hér á þessu þingi sé andvígur þessum breytingum efnislega. Ég vil því spyrja hæstv. félmrh. hvort hún sé mér ekki sammála í því að alla vega þetta atriði verði með einum eða öðrum hætti að komast í gegn núna áður en þingi lýkur og eins og ég segi, mitt tilboð stendur með það, ég er tilbúin að taka orðrétt þau ákvæði sem eru þarna í 25. gr. þessa frv. ef það verður til að greiða fyrir

málinu þar sem það frv. kom miklu fyrr fram eða ella að láta mitt frv. liggja ef það yrði tryggt að þessi grein, 25. gr. þessa frv., fengi að komast í gegn. Og ég ítreka það að ég er alveg sannfærð um að það er ekki nokkur ágreiningur, það er ekki nokkur maður sem er ósammála því að taka þetta áfram.
    Það sem ég er sérstaklega að hafa áhyggjur af er það sem kom fram í ummælum hæstv. félmrh. nú áðan að það séu ákveðin mál sem hugsanlega sé ágreiningur um enn þá í þessu frv. og með því að spyrða þetta allt saman erum við að setja allt málið í uppnám. Við erum í rauninni í þeirri stöðu að það er ekki hægt að bjóða upp á svona pakka, allt eða ekkert, að góð mál séu látin danka bara til þess að koma öðrum sem eru umdeildari í gegn og þess vegna er kannski betra að taka hvert efnisatriði fyrir sig og leita sátta og samstarfs um að koma því í gegn sem þar er tvímælalaust til bóta og réttlætis og leyfa hinu þá bara að liggja. Það verður að hafa það, það þýðir ekki að setja þessa þumalskrúfu á þá sem þurfa að fjalla um þetta í miklum flýti í hv. félmn. að þeir taki annaðhvort allt eða ekkert. Og ég hef trú á því og þykist raunar hafa heyrt það á hæstv. félmrh. að hún sé reiðubúin að kanna það eða reyna til þrautar hvernig þetta væri hægt en ég vil gjarnan fá það staðfest hvort þetta sé réttur skilningur minn.
    Það eru mörg atriði sem ástæða væri til að fjalla um í þessu frv. því að hér eru í bland bæði ákveðið réttlætismál tekið fyrir og svo breytingar sem eru frekar stjórnsýslulegar. Það er alveg áreiðanlegt að sumt af því er umdeilanlegra. Ég veit það að hv. félmn. mun án efa reyna sitt til að taka á þessu máli á þeim mjög svo skamma og í rauninni hræðilega skamma tíma sem henni gefst til þess og sé það veganesti alveg örugglega að þarna verði hægt að taka út forgangsatriði þá hef ég trú á því að þarna náist niðurstaða sem verður við unað.
    Virðulegi forseti. Þrátt fyrir það að hér væri ástæða til þess að fjölyrða um fleiri greinar, þá held ég að ég láti það duga. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem hefur komið fram fyrr í þessari umræðu og vonast til þess að hæstv. félmrh. gefi mér greið svör við fyrirspurnum mínum.