Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:53:05 (4458)


[14:53]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef skýrt þetta mál mjög vel í þessari umræðu og það er verið að falla frá þessari 25. gr. Það er alveg rétt að af hálfu þeirra sem sömdu frv., þá fannst þeim mjög mikilvægt að vextir gætu lækkað alveg eins og þeir gætu hækkað. Það er hins vegar miklu stærri stefnumörkun sem felst í því að fara að láta vexti fylgja tekjum fólks upp og niður og það er mjög flókið þegar það er skoðað að vera að hækka vexti og lækka og það er í raun og veru eitt ár sem getur skipt sköpum í hvoru tilfellinu

fyrir sig.
    Það er vitað að t.d. tekjur barna eins og þær hafa verið reiknaðar hafi getað sett upp tekjur heimilis kannski eitt ár þannig að meðaltal þriggja ára hafi sett fólk upp fyrir tekjumörkin en síðan hafa börnin flutt að heiman og eftir situr fólkið við sömu aðstæður og áður og með hærri vexti.
    Það hefur líka verið þannig að það var heimilt að hækka vexti út á aukna eignamyndun. Það er tekið á því í þessu frv. að aukinn eignarhluti í íbúð mun ekki valda vaxtahækkun. Hins vegar er búið að breyta 25. gr. þannig að í henni er tekið á því að það þarf meira til að fólk lendi í vaxtahækkuninni. Það þarf bæði að hafa farið í meðaltekjum yfir tekjumörkin sem félagslega kerfið miðast við í þrjú ár að undangengnum sex og það þarf líka að hafa lent í tekjum fyrir ofan tekjumörkin í tvö ár og hvort árið um sig. Þetta er öðruvísi útfærsla. Það er verið að þrengja þann hóp sem lendir í vaxtahækkuninni en það er verið að breyta því að í þessu frv. á ekki að þessu sinni að fara út í það að vextir geti lækkað aftur. Þetta er ég búin að fara mjög vel í gegnum í minni framsögu og þykir það miður að þingmaðurinn hafi ekki getað fylgt málinu frá upphafi.