Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 15:05:43 (4462)


[15:05]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki tilbúin til að koma með neina yfirlýsingu um það hér og nú úr þessum ræðustól að hve miklu leyti ég sé sammála efnistriðum í frv. þingmannsins eða að hve miklu leyti ég mundi vilja standa að slíku frv., þessu frv. yfirleitt vegna þess að mínir dagar hafa verið þannig að undanförnu að ég verð að viðurkenna að ég hef ekki gefið mér tækifæri til þess að fara ítarlega ofan í frv. þingmannsins. Hins vegar hef ég óskað eftir því að aðrir gerðu það og fyrstu viðbrögð sem ég hef fengið er að þetta sé fyrst og fremst þýtt frv. frá norska frv. og að í því séu þættir sem séu öðruvísi heldur en hjá okkur og það mundi ekki vera hægt að taka það beint eins og það er. Að sjálfsögðu mun ég láta skoða þetta frv. vel og ég get engu svarað um það á þessari stundu hvort frv. frá mér sé að koma fram eftir helgi eða ekki. Ég er búin að reka mjög á eftir þeirri vinnu. Ég hef líka sagt það fyrr í þessari umræðu að þetta eru mjög flókin mál. Þetta eru ekki eingöngu mál sem hvíla á félmrn. að láta vinna. Þetta er kannski mun meira málefni dómsmrn. og samvinna þarf að vera mjög rík um framgöngu í þessu máli öllu. Ég læt nóg sagt um það.
    Varðandi fækkun félagslegra íbúða þá var það samkomulag okkar í ríkisstjórn, okkar í Alþfl., að til að ná fram svo miklu hagsmunamáli sem húsaleigubætur voru og nýjum útgjöldum með þeim á erfiðum tíma þá fannst okkur réttlætanlegt að byggja og fara fram með færri félagslegar íbúðir á þessu ári vegna þess að svo margir þeirra sem ella hefðu þurft á fyrirgreiðslu varðandi félagslegar íbúðir að halda mundu e.t.v. ekki þurfa þess með tilkomu húsaleigubóta.
    Varðandi það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi áðan um enn þá meiri fækkun þá var ég að færa fyrir því rök í minni framsögu að hann væri að ganga út frá því að í einni úthlutun yrði leiðrétt greiðsluflæði í sjóðinn sem byggðist á því að endursöluíbúðir hefðu verið utan við þessar 500 íbúðir. Það er að sjálfsögðu hlutur sem ég mun skoða en hef enga trú á að komi til á þessu eina ári.