Lánasjóður sveitarfélaga

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 15:29:32 (4468)


[15:29]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð sveitarfélaga og er þetta mál sams konar og það sem ég hef mælt fyrir um Bjargráðasjóð.

    Ég tel ekki þörf á að endurtaka það sem ég sagði þá um lög nr. 123/1993. Hins vegar er ástæða til að víkja stuttlega að starfsemi Lánasjóðs sveitarfélaga og skýra ástæður sem liggja varðandi hann að baki þessa frv.
    Samkvæmt lögum um Lánasjóð sveitarfélaga er það m.a. hlutverk sjóðsins að veita sveitarfélögum stofnlán til nauðsynlegra framkvæmda eða fjárfestinga sem eru svo kostnaðarsamar að fjár til þeirra verður ekki aflað af tekjum sveitarfélags nema á löngum tíma. Þá segir í 1. málsl. 6. gr. laganna að stjórn sjóðsins sé heimilt að gefa út skuldabréf fyrir hans hönd til þess að afla sjóðnum lánsfjár samkvæmt c- og d-lið 5. gr. laganna. Ljóst er samkvæmt þessu að Lánasjóður sveitarfélaga telst lánastofnun í skilningi laga nr. 123/1993.
    Í ákvæði I til bráðabirgða með þeim lögum er tekið fram að lánastofnanir sem falla undir skilgreiningu laganna og starfandi eru við gildistöku þeirra skuli hafa aðlagað starfsemi sína ákvæðum laganna fyrir 1. jan. 1995. Gert er þannig ráð fyrir því að lög þeirra stofnana sem undir lögin eiga að falla verði samræmd lögum nr. 123/1993 fyrir 1. jan. 1995. Því verður að breyta lögum þeirra stofnana sem falla nú undir hugtakið lánastofnun eins og það er skilgreint í lögum nr. 123/1993 en ekki er ætlast til að lögin nái til.
    Lánasjóður sveitarfélaga hefur afar sérstöku og afmörkuðu hlutverki að gegna við sveitarfélögin í landinu. Engin ástæða er til að breyta lögum hans í veigamiklum atriðum og laga hann sérstaklega að reglum og kröfum Evrópusambandsins.
    Sjóðurinn þarfnast ekki heimildar til útgáfu og sölu á skuldabréfum eða öðrum endurgreiðanlegum skuldarviðurkenningum til almennings til að fjármagna starfsemi sína. 1. gr. frv. þessa gerir því ráð fyrir tekið verði sérstaklega fram í 6. gr. laganna að sjóðnum sé ekki heimilt að afla sér lánsfjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Eftir þá breytingu rúmast starfsemi sjóðsins ekki lengur innan þeirrar skilgreiningar á lánastofnun sem fram kemur í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 123/1993.
    Í þessu sambandi er rétt að geta þess að í 15. gr. laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins er að finna sambærilegt ákvæði og þetta og það ákvæði var beinlínis sett til þess að Þróunarsjóður sjávarútvegsins heyrði ekki undir lög nr. 123/1993.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. er ekki efnismikið en það er mikilvægt fyrir starfsemi Lánasjóðs sveitarfélaga að það verði samþykkt á þessu þingi og hefur Samband íslenskra sveitarfélaga lagt mikla áherslu á það. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félmn. og 2. umr.