Launamyndun og kynbundinn launamismunur

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 15:50:31 (4473)


[15:50]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Launamismunur á Íslandi hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Það þarf því engan að undra þó kynbundinn launamismunur hafi einnig vaxið. Öruggasta leiðin til að brjóta niður regluna um sömu laun fyrir sömu vinnu er að brjóta niður verkalýðshreyfinguna. Einkasamningar við starfsmenn eru vitanlega til þess fallnir að auka á launamismun enda oft bundnir trúnaði við einstaka starfsmenn og jafnvel inni á vinnustöðum.
    Launakerfið í landinu er löngu hrunið og samningar um lágmarkslaun eru enginn mælikvarði á hin raunverulegu laun. Þess vegna er erfitt að sakast í sífellu við verkalýðshreyfinguna. Það sem máli skiptir er alls kyns önnur laun og sporslur og því meiri sem hærra kemur í launastigann. Það eru engar sporslur hjá fiskvinnslufólkinu eða iðjuverkafólkinu heldur því hærra sem kemur upp í launastigann þeim mun hærri verða sporslurnar. En þessi laun eiga konur miklu erfiðara að sækja en karlmenn og einkum og sér í lagi konur með fjölskyldur vegna ójafnrar stöðu varðandi skyldur við börn og heimili. Þetta þekkir hver kona. Hvort skyldu t.d. fleiri mæður en feður vera að gæta barna í dag meðan ríkisstjórnin heldur kennarastéttinni í verkfalli?
    Það er ljóst að það þarf fyrst og fremst hugarfarsbreytingu til að breyta þeirri stöðu, ekki aðeins meðal atvinnurekenda heldur meðal þjóðarinnar allrar. Félagsmálaráðherrar Alþfl. hafa vanrækt þessi mál árum saman meðan þeir höfðu aðstöðu til að sinna þeim og ég verð að segja það, hæstv. forseti, að við viljum ekki fleiri kannanir, við þurfum þær ekki. Við vitum nákvæmlega hvernig þessi mál standa og ég ætla að vona að ný ríkisstjórn sem tekur við innan skamms gangi til verka og hætti að láta gera kannanir.