Launamyndun og kynbundinn launamismunur

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 15:57:01 (4476)


[15:57]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vona sannarlega að þessi umræða í dag reynist þörf en mikið óskaplega vildi ég að það væri ekki ástæða til að efna til hennar.
    Allir þeir flokkar sem taka þátt í umræðunni hafa verið í ríkisstjórn á undanförnum átta árum nema Kvennalistinn. Þessir flokkar hafa allir brugðist nema Kvennalistinn. Tillögum Kvennalistans um lögbindingu lágmarkslauna og endurskoðun á launakerfi ríkisins hefur verið hafnað, svæft í nefnd. Hugmyndir Kvennalistans um krónutöluhækkun á öll laun ríkisstarfsmanna voru hunsaðar í stjórnarmyndunarviðræðum 1983. Tillögum Kvennalistans um úrbætur í launamálum var aftur hafnað í næstu stjórnarmyndunarviðræðum 1987. Það hefur enn ekki tekist þjóðarsátt um launajöfnun.
    Launamunur milli karla og kvenna er þekktur í flestum löndum en til eru leiðir til að bæta ástandið og ein af þeim leiðum er starfsmat. Í sumum fylkjum Kanada, m.a. í Ontario, hefur náðst mjög góður árangur í launajöfnun með svokölluðu kynhlutlausu starfsmati og það ætti að vera hægt að leita í smiðju til Kanadamanna ef einhver vilji er í raun til þess að bæta úr því smánarlega ástandi sem við búum nú við.
    Launakerfið er ónýtt og það gefur færi á því að hygla körlum umfram konur, taxtalaunin eru greinilega ekki mönnum bjóðandi en konum er boðið upp á þetta. Við vitum af því að það er ósýnilegt launaþak sem konur komast ekki upp fyrir en uppi á því glerþaki er allt morandi af körlum.
    Sé einhver raunverulegur vilji til þess að taka á þessum málum þá skora ég á hæstv. Alþingi að samþykkja frá kvennalistakonum t.d. þá þáltill. sem liggur fyrir um viðmiðun lágmarkslauna við reiknaðan lágmarksframfærslukostnað. Það yrði svo sannarlega kjarabót fyrir konur.