Launamyndun og kynbundinn launamismunur

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 15:59:22 (4477)


[15:59]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég tel að hér sé um mjög merka skýrslu að ræða og ég játa það að mér var ekki ljóst innihald hennar og tel að þeir séu mjög vel að sér sem hafi vitað það fyrir. Nú vill svo til að stærsti launagreiðandinn er íslenska ríkið en stærsti greiðandi launa í landinu hjá sveitarfélögum er Reykjavíkurborg. Þess vegna tel ég nauðsyn að fá fleiri skýrslur, fá skýrslu um það hvernig þetta ástand var hjá Reykjavíkurborg áður en núv. borgarstjóri tók við völdum og hvernig ástandið verður þegar núv. meiri hluti fer frá völdum vegna þess að mér finnst það ekki ná neinni átt að hér standi upp kvennalistakonur og tali eins og hreinar meyjar í þessum efnum.
    Við höfum kosið forseta yfir Alþingi, tvo forseta hæstvirta sem hafa verið konur. Hafa þær tryggt það á þessum vinnustað að farið væri eftir þeim leikreglum sem hér er verið að boða? Hefur það verið rannsakað?
    Það er vissulega rétt að refsiákvæðin vantar í þessi lög. Hvernig haldið þið að það gengi að framkvæma umferðarlögin ef engin refsiákvæði væru í þeim? Og hvernig getur hæstv. félmrh. sagt að það sé ekki hægt að gefa upp nafnið á ríkisstofnun sem neitar að gefa upplýsingar? Hvað er verið að fela og hverjir eru þá að taka þátt í því að þessu er haldið leyndu? Ég hélt að það væri einfalt mál að óska þá eftir því að það sé Ríkisendurskoðun sem veiti upplýsingarnar um viðkomandi stofnun nema það hafi verið Ríkisendurskoðun sem neitaði. Þá eru menn náttúrlega komnir í slæmt mál að fá upplýsingarnar.
    Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.