Launamyndun og kynbundinn launamismunur

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 16:01:38 (4478)


[16:01]

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Því miður komst ég ekki til fundar fyrr og hef þess vegna ekki hlustað mjög ítarlega á allar ræður þó ég hafi hlustað á flestar þær fyrstu. Ég tel að sú skýrsla sem liggur fyrir sé merkilegt framtak. Ég hef kynnt mér meginniðurstöður skýrslunnar. Ég held að það séu ekki nein ný sannindi sem koma fram í skýrslunni og ég tel að gagnsemi skýrslunnar muni felast fyrst og fremst í því að örva umræður um þessi mikilvægu mál. Ég held að meginatriðið sé það að okkur ber að líta á þá starfsmenn sem vinna bæði hjá hinu opinbera og eins á einkamarkaði fyrst og fremst sem einstaklinga en ekki sem hóp af konum og hóp af körlum. Ef við gætum tileinkað okkur þennan hugsunarhátt væri þetta dálítið auðveldara, það skýrði fyrir okkur í hverju vandamálið liggur en það liggur í verka- og hlutverkaskiptingu kynjanna, ekki síst inni á heimilunum sjálfum þangað sem lögin ná ekki til, þangað sem vald ríkisins nær ekki til. Það býr í ómeðvitaðri afstöðu okkar sjálfra, okkar allra.
    Ég get ekki á örstuttum tíma haft langt mál um þetta en vegna þess að í skýrslunni kemur fram að nokkur munur sé á launakjörum einstaklinga, kvenkyns einstaklinga hjá hinu opinbera og hjá hinum sem vinna á almennum markaði hef ég gert ráðstafanir til þess að fjmrn. kanni þessa skýrslu rækilega og tillögur verði enn fremur gerðar um það hvernig bregðast skuli við. Það er auðvitað ódýrt og einfalt að segja frá því að það séu gallar í launakerfi hins opinbera eða launakerfi á almennum vinnumarkaði. Þetta eru launakerfi sem hafa þróast um áratuga skeið og auðvitað tekur nokkurn tíma að bæta úr en aðalatriðið er að menn taki niðurstöðu skýrslunnar alvarlega og ég vildi láta koma fram að þetta mál verður að sjálfsögðu skoðað í fjmrn. að því marki sem málið snýr að því.