Tilvísanakerfið

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:15:43 (4489)

[15:15]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ný reglugerð um tilvísanakerfi tekur gildi í dag, 20. febrúar. Tilvísanakerfið var í landinu til ársins 1984. Þá þurfti Tryggingastofnun ekki að greiða reikninga sérfræðinga nema þeir hefðu tilvísun heimilislæknis. Í reynd voru undantekningarnar margar og menn voru sammála um að framkvæmdin hefði verið þeim þeim hætti að kerfið hefði nánast engu skilað. Nú er hins vegar ákveðið að hverfa aftur til fyrra horfs.
    Nokkuð harðar deilur hafa spunnist um málið og nú þegar reglugerðin um tilvísanir liggur fyrir vakna spurningar sem eru tilefni beiðni minnar um þessa utandagskrárumræðu. Ég tek undir það markmið sem er stefnan í þessu nýja en annars gamla tilvísanakerfi að sjúkrasögu sjúklings sé haldið til haga á einum stað og þá hjá heilsugæslulækni eða heimilislækni. Það getur verið mjög mikilvægt atriði fyrir sjúkling og lækna og jafnvel skipt sköpum í bráðatilfellum. Það eru hin faglegu rök fyrir tilvísanakerfinu.
    En þá vaknar fyrsta spurningin: Hvernig er það betur tryggt með en án tilvísanakerfis? Sá sérfræðingur sem í dag skilar ekki skýrslu til heilsugæslulæknis, hvað hvetur hann frekar á morgun til slíkra bréfaskrifta? Þetta er mikilvæg spurning því mér sýnist þetta vera annar af tveimur aðalkostum tilvísanakerfisins en hinn kosturinn er að spara 100 millj. kr. sem vekur aðrar spurningar: Hvernig sparast þetta fé? Sú hugsun byggist á að komum til sérfræðinga muni fækka um 85 þúsund, úr 270 þúsund komum í 185 þúsund. Margir veikleikar virðast vera í þessum útreikningum. Því spyr ég: Er ekki hér verið að auka verulega álögur á sjúklinga?
    Við sem búum úti á landi við það að eiga góða heilsugæslulækna hlaupum ekki til sérfræðings nema í undantekningartilvikum og þau eru t.d. þessi: Konur vitja kvensjúkdómalæknis vegna þess að þær vilja fara milliliðalaust til hans með mál sem þær vita fyrir að sá sérfræðingur einn mun bæta úr. Það geta konur gert þrátt fyrir nýtt kerfi en borga þá meira fyrir þjónustuna og greiða þá fyrir allar rannsóknir. Foreldrar með veikt barn sem vitað er fyrir af fyrri reynslu að þarf á sérfræðiaðstoð að halda. Það er auðvitað aukið álag fyrir barnið að vitja tveggja lækna og það getur líka tafið fyrir bata. Jú, það er hægt að fara beint til barnasérfræðings en þá er borgað meira fyrir það. Gamalt fólk sem þarf nú að fara tvær ferðir í stað einnar áður ef það þarf að heimsækja sérfræðing, það er dýrt fyrir gamalt fólk sem t.d. hefur ekki yfirráð yfir farartæki. Nú er ég að tala um tilvik þar sem það er fyrirséð, t.d. af fyrri reynslu, að sérfræðinga er þörf. En stóra spurningin er: Hvað gerist þegar uppsagnir um eða yfir 200 sérfræðinga rennur út við Tryggingastofnun ríkisins? Hvað mun sú uppsögn þýða fyrir sjúklinga?
    Spurningar mínar eru þessar, þær eru sex og ég ætla að lesa þær upp:
    1. Hvað gerist þegar uppsagnir yfir 200 sérfræðinga við Tryggingastofnun ríkisins taka gildi?
    2. Hvernig getur tilvísanakerfið sparað 100 millj.?
    3. Hvernig verður það betur tryggt í nýja tilvísanakerfinu að sjúkrasaga sjúklings vistist á einum stað hjá heilsugæslulækni?
    4. Hvað er talið að nýtt tilvísanakerfi kosti sjúklinga?
    5. Hvað kostar það ríkið að koma þessu nýja tilvísanakerfi af stað?
    6. Átta þúsund Reykvíkinga vantar heilsugæslulækni. Hvernig verða þeir tryggðir?