Tilvísanakerfið

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:30:25 (4493)


[15:30]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það var ákvörðun Sjálfstfl. og Alþfl. að heimila hæstv. heilbrrh. með reglugerð að taka upp það kerfi sem menn vilja kalla tilvísanakerfi. Það er því á ábyrgð þessara flokka hvernig til tekst. Ég sagði það við atkvæðagreiðslu þegar ég sat hjá að ég væri af fjárhagslegum og faglegum ástæðum að mörgu leyti sammála því að taka upp tilvísanakerfi, hins vegar skipti það höfuðmáli hvernig að hlutunum yrði staðið. Það sem nú er að gerast er að deila hæstv. heilbr.- og trmrh. og sérfræðinga er að verða kjaradeila og hún er að taka á sig grafalvarlega mynd vegna þess að staðreyndin er sú að það er ekki hægt að koma hér á tilvísanakerfi nema í sátt við bæði heimilislækna og sérfræðinga. Sérfræðingar, sem segja sig núna frá samningi við Tryggingastofnun ríkisins, munu í heilum sérgreinum hverfa í burtu og ekki taka á móti sjúklingum í þjónustu nema þeir greiði reikninginn að fullu. Þetta þýðir að það myndast slíkur þrýstingur á hæstv. heilbr.- og trmrh. að ráðherrann þarf að setja reglugerð um hve stóran hluta af þeim reikningi er sérfræðingar sjálfir setja upp tryggingarnar ætli að taka þátt í að greiða. Mismunurinn á reglugerð hæstv. heilbr.- og trmrh. og þeirri gjaldskrá sem sérfræðingarnir setja verður sjúklingaskatturinn. En þegar við komum að því og höfum það í huga að það eru 270 þús. komur til sérfræðinga á einu ári og Tryggingastofnun ríkisins er opin 270 daga á ári, þá þarf hún að afgreiða þúsund manns sem koma í stofnunina hverjum einasta degi til þess að fá reikningana sína endurgreidda. Og ég segi: Ef þetta gengur fram með þessum hætti þá mun því miður þetta kerfi ekki ná fram að ganga.