Tilvísanakerfið

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:32:38 (4494)


[15:32]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil láta það álit mitt koma fram sem hefur lengi verið að skynsamlegt sé að efla grunnheilsugæsluþrepið og það hljóti að vera bæði ódýrast og eðlilegast að reyna að leysa eins mörg heilbrigðisvandamál á fyrsta þrepi heilsugæslunnar og kostur er. Að því leyti til get ég stutt þá hugsun sem liggur að baki hugmyndum um einhvers konar tilvísunarkerfi. Gallinn er bara sá að eins og hæstv. heilbrrh. hefur haldið á þessu máli og í raun og veru klúðrað því þá sé ég alls ekki að aðgerð hans sé að ná tilgangi sínum, því miður. Það sem ég held að sé aðalmeinsemdin í þessu eru þau skemmdarverk sem búið er að vinna fyrir á heilbrigðiskerfinu. Er ég þá alveg sérstaklega að tala um komugjöldin og þá aðgöngumiða sem menn þurfa núorðið að kaupa sér að heilbrigðisþjónustunni.
    Það gefur auga leið að með tilkomu komugjaldanna er orðin allt önnur aðgerð að taka síðan í viðbót upp tilvísunarskyldu þannig að menn þurfi fyrst að borga komugjöld til að fá tilvísun, þ.e. sá hluti sjúklinganna sem þarf sannanlega á þjónustu sérfræðinga að halda. Svo bætist það við að þegar hæstv. ráðherra lendir í illindum með þetta eins og flest annað sem hann hefur aðhafst í heilbrigðismálum og allt fer upp í loft og ekki er samkomulag um nokkurn hlut þá bitnar það á sjúklingunum sem missa tryggingaverndina með því að samkomulaginu er sagt uppp. Málið er því í hinu megnasta óefni.
    Sömuleiðis vil ég mótmæla þeim skollaleik sem er í kringum þetta mál af hálfu stjórnarflokkanna. Fyrst heimilar Sjálfstfl. við fjárlagaafgreiðsluna að ráðherrann megi taka upp þessa tilvísunarskyldu en hleypur svo frá málinu rétt fyrir kosningar og formaður einhverrar heilbrigðisnefndar, eða hvað það nú er í því batteríi, í Sjálfstfl., hv. þm. Lára Margrét, kemur allt í einu í bakið á ráðherranum og það er ekki annað að sjá en stuðningur Sjálfstfl. við málið sé gufaður upp. Manni verður því á spyrja: Er svo kannski þetta brölt allt saman aðeins til þess að tilvísunarkerfið standi í nokkrar vikur með stórkostlegum illindum og ólátum sem fyrst og fremst bitna á sjúklingunum? Þá er sennilega verra af stað farið en heima setið.