Tilvísanakerfið

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:34:59 (4495)

[15:34]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég rifja það upp í byrjun að á fyrra tímabili hæstv. heilbrrh. á þeim stóli gerði hann tilraun til að koma á tilvísunarkerfi en það var stöðvað vegna mikillar andstöðu. Ég held að okkur sé öllum ljóst að það er afar óskynsamlegt að koma á breytingu eins og þessari í fullkominni andstöðu við þá sérfræðinga sem eiga að vinna eftir þessu kerfi. Það er ekki vænlegt til árangurs að vinna með svona aðferðum eins og dæmin sanna.
    Ef tilvísunarkerfinu verður komið á þá mun það ótvírætt valda mjög mörgum sjúklingum óhagræði. Það verður um minna val að ræða og ég nefni sérstaklega að fyrir þær konur sem vilja fara til kvensjúkdómalæknis og hafa sinn kvensjúkdómalækni er það mikið óhagræði að þurfa að fara fyrst á heilsugæslustöð. Þó að hæstv. heilbrrh. hafi haft orð um að halda kvensjúkdómalæknum utan við þá er staðreyndin sú að þessi læknahópur er allur að segja upp samningum sínum við Tryggingastofnun og verður úti á hinum sjálfstæða markaði. Það gefur auga leið að ef þessi reglugerð gengur í gildi þá fer allt í háaloft eftir því sem hún nær til hinna ýmsu hópa sérfræðinga.
    Mergurinn málsins er þessi: Það hefur ekki verið sýnt fram á að það náist neinn sparnaður. Við hljótum að krefjast þess að hæstv. heilbrrh. leggi fram þetta mat sem hann hefur vitnað til og skýri fyrir okkur nákvæmlega í hverju þessi sparnaður felst. Það er ekki nokkur leið að sjá að þegar fólk þarf að fara

tvær ferðir í staðinn fyrir eina, þó að tilvísunin gildi svo í lengri tíma, lýsi það sér í einhverjum sparnaði til lengri tíma. Hvað um vinnutap fólk vegna þessara ferða? Hvað um langtímaáhrif þess að fólk frestar því að fara til læknis? Hvað um kostnaðinn við það að koma kerfinu á?
    Við þurfum að fá svar við þessu og meðan slíkt svar fæst ekki og ekki hefur verið sýnt fram á sparnað þá er ég algerlega andvíg því að þessu kerfi sé komið á.