Endurgreiðsla virðisaukaskatts til sveitarfélaga

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:48:13 (4500)


[15:48]
     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er hefur verið ágreiningur um túlkun á reglugerð nr. 48/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Ágreiningsatriðin eru mörg og brenna mismikið á sveitarfélögunum en ágreiningurinn er fyrst og fremst á milli sveitarfélaga og ríkis. Ég hef kosið að beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. varðandi tvo tölulið fyrrnefndrar reglugerðar. Það er túlkun fjmrn. á tölulið 1 í 12. gr. reglugerðarinnar þar sem um er að ræða þau tilvik er sveitarfélögin bera ábyrgð á söfnun, flutningi og förgun úrgangsefna. En ég spyr um skilgreiningu ráðuneytis á því hvaða útgangsefni falla undir orðið sorp.
    Tilefni þessarar spurningar er m.a. erindi sem send hafa verið frá samtökum sveitarfélaga þar sem mótmælt er þeirri túlkun að brotamálmar falli ekki undir orðið sorp í reglugerðinni. Ég er hér með bréf, hæstv. forseti, sem mig langar til að vitna í en það er frá Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra þar sem leitað er eftir túlkun ríkisskattstjóra á sömu reglugerð. Í svari sem barst frá ríkisskattstjóra til Hvammstangahrepps og Sambands sveitarfélaga í Norðurlandi vestra segir að ekki beri að túlka reglugerðina þannig að brotamálmar falli undir orðið sorp í reglugerðinni. En Samband sveitarfélaga í Norðurlandi vestra mótmælir þessu og bendir á að þeir buðu út brottflutning á brotamálmum á sl. vori, samtals

1.200 tonn frá fimm stöðum á Norðurlandi vestra. Þegar útboðið var gert datt ekki nokkrum manni í hug að virðisaukaskattur fengist ekki endurgreiddur af þessari vinnu. Virðisaukaskatturinn hækkar kostnaðinn við verkið um 1,3 millj. kr. og þeir segja að það sé augljóst að sveitarfélögin muni snúa sér að einhverju öðru en brottflutningi brotamálma á meðan þessi úrskurður er í gildi.
    Jafnframt kemur fram í þessari greinargerð frá ríkisskattstjóra að ekki skuli greiða virðisaukaskatt af þessari starfsemi vegna þess að brotamálmar fari til endurvinnslu og því geti þeir ekki talist sorp. En því er nú þannig háttað að það er æðimargt sem fellur undir orðið sorp sem fer í endurvinnslu. Þá ber líka að geta þess að það hefur verið boðað ein þrjú ár í röð, held ég, að hér verði lagt fram frv. um brotamálma en það er ekki komið fram enn. Við vitum því ekki hvernig á að fara með þessi mál.
    Þá spyr ég fjmrh. um túlkun ráðuneytis á 4. tölul. 12. gr. sömu reglugerðar þar sem um er að ræða endurgreiðslu virðisaukaskatts af björgunarstörfum og öryggisgæslu vegna náttúruhamfara og almannavarna. Þar hefur komið fram að einungis er um endurgreiðslu að ræða vegna kostnaðar sem opinberir aðilar verða fyrir vegna björgunarstarfa sem miða að því að koma í veg fyrir að meiri eyðilegging verði af sama atburði eða að eyðilegging vegna sama atburðar haldi áfram á þeim tíma sem náttúruhamfarir standa yfir.
    Reglugerðin gerir hins vegar ekki ráð fyrir að það verði endurgreiddur virðisaukaskattur vegna forvarnaaðgerða eða aðgerða vegna afleiðinga náttúruhamfara og hlýtur það að teljast bagalegt.