Endurgreiðsla virðisaukaskatts til sveitarfélaga

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:52:06 (4501)


[15:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Sem svar við fyrri hluta fyrirspurnar hv. þm. vil ég segja þetta:
    Reglugerð nr. 248/1990 kveður annars vegar á um skattskyldu opinberra aðila, þar með talin sveitarfélög, þegar þessir aðilar selja skattskyldar vörur og þjónustu eða inna af hendi þjónustu eða framleiða vöru til eigin nota. Hins vegar kveður reglugerðin á um endurgreiðslu virðisaukaskatts til ríkisstofnana og sveitarfélaga vegna kaupa á tiltekinni vinnu og þjónustu. Markmiðið með setningu reglugerðarinnar var fyrst og fremst að leysa úr samkeppnisvandamálum sem upp geta komið þegar opinberir aðilar, sem almennt eru ekki skattskyldir, hafa með höndum starfsemi sem einnig er stunduð af einkaaðilum á hinum almenna markaði og ber þá virðisaukaskatt. Þá var einnig verið að viðhalda endurgreiðslum sem höfðu átt sér stað í gamla söluskattskerfinu t.d. vegna snjómoksturs en slíkur kostnaður fellur misþungt á sveitarfélög. Samkeppnisvandamálin eru leyst þannig í reglugerðinni að opinberum aðilum er ýmist gert að greiða virðisaukaskatt af þeirri starfsemi sem rekin er í samkeppni við atvinnufyrirtæki eða að virðisaukaskattur sem greiddur er vegna kaupa á tiltekinni vinnu eða þjónustu er endurgreiddur. Í þeim tilvikum sem virðisaukaskattur fæst endurgreiddur er sams konar starfsemi sem sveitarfélög annast ekki skattskyld.
    Báðar aðferðirnar eiga að leiða til þess að álagning virðisaukaskatts sé hlutlaus gagnvart því hvort ríkisstofnun eða sveitarfélag kemur sér upp eigin þjónustudeild eða kaupir þjónustu af einkaaðila. Sorphreinsun er dæmi um starfsemi sem sveitarfélög ýmist inna af höndum sjálf eða kaupa af einkafyrirtækjum. Þar sem virðisaukaskattur af sorphreinsun er endurgreiddur þurfa sveitarfélög ekki að leggja skatt á þá starfsemi ef þau annast hana sjálf.
    Ákvæðið um endurgreiðslu á sorphreinsun er svohljóðandi: ,,Endurgreiða skal sveitarfélögum og ríkisstofnunum virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á eftirtalinni vinnu og þjónustu:
    1. Sorphreinsun, þ.e. söfnun, flutningi og eyðingu sorps. Virðisaukaskattur vegna endurvinnslu fellur ekki hér undir . . .
``

    Með sorpi í skilningi ákvæðisins er átt við leifar, rusl og umbúðir sem falla til við heimilishald, þ.e. neysluúrgang. Einnig er átt við úrgang sem fellur til við aðra starfsemi og hefur svipaða eiginleika. Hér er því átt við eiginlegt heimilissorp en t.d. ekki úrgang eins og tréafskurð, mold, möl, grjót, járnarusl og fleira þegar slíkur úrgangur verður til við hreinsun á götum eða opnum svæðum sveitarfélags.
    Með ákvæðinu er fyrst og fremst átt við hina eiginlegu sorphirðu, þ.e. tæmingu ruslatunna og gáma vegna heimilissorps og flutning sorpsins á ruslahauga ásamt urðun eða eyðingu.
    Það skal tekið fram að þegar við höfum skoðað endurgreiðslurnar milli ára kemur í ljós að þær hafa aukist mun meira en annað sambærilegt í slíku eða um 35% á milli áranna 1992 og 1993. Þar af kemur í ljós að endurgreiðslur vegna sorphreinsunar hafa aukist um 48% sem sýnir að hér er um gífurlega aukningu að ræða hvað þetta snertir.
    Varðandi síðari fyrirspurnina sem snýr að björgunarstörfum skal þetta tekið fram: Ákvæðið er túlkað á þann veg að endurgreiða skuli virðisaukaskatt af kostnaði sem ríkisstofnun eða sveitarfélag verður fyrir vegna björgunarstarfa og öryggisgæslu meðan á náttúruhamförunum stendur eða í órofatengslum við þær. Síðar tilkominn kostnaður vegna viðgerða og lagfæringa vegna tjóns sem orðið hefur telst ekki falla undir ákvæði. Ekki er talið skipta máli í þessu sambandi hvort um bráðabirgðaviðgerðir er að ræða eða varanlegar framkvæmdir.
    Fá mál hafa komið upp vegna þessa ákvæðis. Þó er vitað um eitt mál sem farið hefur fyrir yfirskattanefnd og var þessi túlkun staðfest af yfirskattanefnd en mér skilst að því máli hafi síðan verið vísað til dómstóla en endanleg niðurstaða dómstóla er ekki enn komin.
    Ég vona, virðulegur forseti, að þetta svari nokkuð fsp. hv. fyrirspyrjanda en vil enn á ný vekja athygli á því að svo virðist sem endurgreiðslur ríkisins til sveitarfélaganna á virðisaukaskatti milli áranna 1993 og 1994 gefi til kynna að þessar endurgreiðslur hafi aukist til muna og mun meira en gera má ráð fyrir vegna breytinga á umfangi slíkrar starfsemi á undanförnum árum.
    Þetta vildi ég láta koma fram þótt það væri ekki eiginlegur hluti af svari við fyrirspurn hv. þm.