Iðnhönnun

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:03:23 (4505)


[16:03]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 580 leyfi ég mér að flytja fsp. til hæstv. iðnrh. um iðnhönnun.
    Iðnhönnun er orð sem er ekki sérlega greypt í þjóðarvitundina að mínu mati þrátt fyrir vaxandi iðnaðarframleiðslu okkar. Engu að síður eru til samtök þeirra sem starfa að iðnhönnun, Form-Ísland heita þau og eru samtök áhugafólks um hönnun. Aðilar að því eru bæði einstaklingar og félög, þ.e. fagfélög hönnuða, og samtök í atvinnulífinu. Samtökin hafa staðið að kynningu á íslenskri hönnun, iðnframleiðslu og handverki á undanförnum árum innan lands og erlendis og hafa góð alþjóðleg tengsl við samsvarandi samtök víða um lönd.
    Fagfélög sem tengjast iðnhönnun eru m.a. Arkitektafélag Íslands, Félag húsgagna- og innanhússarkitekta, Félag iðnhönnuða á Íslandi, Textílfélagið, Leirlistafélagið, Félag gullsmiða, Félag fatahönnuða og Félaga íslenskra teiknara, svo nokkur séu nefnd.
    Það ætti flestum að vera ljóst að átak við nýsköpun verður ekki í íslenskum framleiðsluiðnaði án þess að þekking og færni hönnuða jafnt sem handverksmanna sé til staðar.
    Á flestum sviðum í atvinnulífinu er þörf fyrir vandaða hönnun. Árangur við framleiðslu og sölu á iðnvarningi getur verið og er háður vönduðum undirbúningi og snjöllum lausnum. Telja verður eðlilegt að opinberir aðilar komi að eflingu iðnhönnunar beint eða óbeint.
    Í stefnumótun Alþýðusambands Íslands í efnahags- og atvinnumálum, Atvinnustefna til nýrrar aldar, sem kynnt hefur verið m.a. á sérstökum fundi í mínum þingflokki, kemur glöggt fram hversu ríka áherslu verkalýðshreyfingin leggur á hvers konar nýsköpun í atvinnulífinu. Þekking, menntun og hæfni á sviði iðnhönnunar er ekki síst sú uppspretta hagvaxtar sem atvinnustefna framtíðar verður að byggjast á. Því hef ég lagt fyrir hæstv. iðnrh. svohljóðandi fsp.:
  ,,1. Með hvaða hætti hefur iðnaðarráðuneytið stuðlað að eflingu iðnhönnunar í tengslum við framleiðsluiðnað?
    2. Hefur iðnaðarráðuneytið stuðlað að styrkveitingum í því skyni að efla iðnhönnun?
    3. Liggja fyrir áætlanir um með hvaða hætti iðnhönnun verði efld í samstarfi opinberra aðila og samtaka iðnaðarins?``