Iðnhönnun

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:06:28 (4506)


[16:06]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ráðuneytið hefur staðið beint og óbeint að ýmsum aðgerðum til að efla iðnhönnun hér á landi sem m.a. kemur fram í stuðningi við verkefni því tengt. Ráðuneytið hefur lagt vaxandi áherslu á stuðning við vöruþróunarverkefni innan fyrirtækja þar sem m.a. er tekið á hönnunarmálum í nánum tengslum við markaðssetningu. Svo nokkur dæmi séu nefnd þá nefni ég í fyrsta lagi stofnun hönnunarstöðvar á árinu 1994 en á árinu 1994 stóð ráðuneytið að stofnun hönnunarstöðvar með aðilum í atvinnulífi. Með stofnun hönnunarstöðvar hér á landi hefur skapast nýr vettvangur til að takast á við hönnun, vöruþróun og markaðssókn. Að hönnunarstöðinni standa aðilar sem tengjast hönnun svo sem Arkitektafélag Íslands, Félag húsgagna- og innanhússarkitekta, ASÍ, framleiðendur, Samtök iðnaðarins, Iðntæknistofnun og Útflutningsráð. Starfsemi hönnunarstöðvarinnar miðast því ekki við eina atvinnugrein heldur mun hún nýtast öllu atvinnulífi. Reksturinn er kostaður af Samtökum iðnaðarins og með framlagi frá iðnrn. Um er að ræða tilraunarekstur til tveggja ára en að þeim tíma liðnum mun starfið verða endurmetið í ljósi reynslunnar.
    Hönnunarstöðin vinnur nú að ýmsum verkefnum og má ég nefna Hönnunardag 95, umbúðasamkeppni, þróun á innlendri framleiðslu sjúkrarúma í samráði iðn.- og heilbrrn., hönnunarhvatning til fyrirtækja, tengsl við norrænar systurstofnanir, innréttingar í félagslegar íbúðir fyrir Reykjavíkurborg og fleira.
    Af öðrum verkefnum vildi ég nefna í fyrsta lagi vöruþróunarverkefni hjá fyrirtækjum við hönnun í trjávöruiðnaði, markaðsverkefni húsgagnaiðnaðarins 1993, bækling um íslenska húsgagnaframleiðendur og hönnuði í byrjun ársins 1993, vöruþróunar- og markaðsverkefni í skipaiðnaði 1994 sem hófst 1994 og stendur til 1995, Vettvang, sem er samstarfsverkefni sjávarútvegsaðila og iðnaðarins þar sem unnið er að þróun vara sem tengjast iðnaði og sjávarútvegi, stuðning við vöruþróunarverkefni Iðntæknistofnunar og

Iðnlánasjóðs. Þá er unnið að gæðaverkefni í matvælaiðnaði í samstarfi við aðila í atvinnulífi sem standa mun í eitt ár en verkefnið fór af stað á árinu 1994. Þá hefur ráðuneytið stutt styrkveitingar í smáiðnaði undanfarin ár í sérstöku verkefni og framhald verður á því á þessu ári. Og loks má nefna að unnið er að tillögugerð um vöruþróunarverkefni innan fiskimjölsverksmiðjunnar og málmiðnaðarins sem miðar að þróun aukinnar gæðavinnslu fiskimjöls hér á landi. Tillögur að þessu verkefni eru unnar innan skipaiðnaðarnefndar og koma til umfjöllunar og ákvörðunar fljótlega innan ráðuneytisins.
    Önnur spurning hv. þm. var: ,,Hefur iðnaðarráðuneytið stuðlað að styrkveitingum í því skyni að efla iðnhönnun?``
    Eins og rakið hefur verið hefur ráðuneytið stutt fjölmörg verkefni sem tengjast bæði beint og óbeint hönnun samkvæmt áðurnefndri upptalningu. Auk slíkra verkefna hefur ráðuneytið styrkt félagasamtök á sviði hönnunar til að auðvelda félagsmönnum þeirra að sækja erlendar sýningar með hönnunarverk sín.
    Þriðja spurning: ,,Liggja fyrir áætlanir um með hvaða hætti iðnhönnun verði efld í samstarfi opinberra aðila og samtaka iðnaðarins?``
    Svarið við því er já. Ég hef vísað til hönnunarstöðvarinnar sem komið var á fót á sl. ári en rekstur hennar er kostaður sameiginlega af Samtökum iðnaðarins og iðnrn. Fyrirhugað er að þetta verkefni standi í tvö ár og í ljósi þeirrar reynslu sem þá hefur fengist verður það endurmetið. Auk þess er að geta þeirra verkefna sem ég hef þegar nefnt á vegum hönnunarstöðvarinnar sem unnin er í samvinnu við iðnaðar- og heilbrigðisráðuneytin, þ.e. hönnun á húsgögnum og húsbúnaði fyrir sjúkrahús og dvalarheimili, gæðaátak í matvælaiðnaði, sérstakt átak til þess að styrkja framleiðendur húshluta, bæði glugga og hurða og fleira. Það eru því mörg verkefni sem þarna er verið að vinna að.
    Ég vildi að lokum fara örfáum orðum um eitt af þessum verkefnum sem er Vettvangur, sameiginlegt verkefni sjútvrn. og iðnrn., þar sem reynt er að laða til samvinnu fyrirtæki í sjávarútvegi og fyrirtæki í iðnaði með það að markmiði að fá út úr þeirri samvinnu ný atvinnutækifæri svo sem í byggingu vinnslulína og við hönnun annars búnaðar sem málmiðnaðurinn getur unnið í samstarfi við sjávarútveginn.