Yfirtökutilboð

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:27:18 (4512)


[16:27]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegur forseti. Eins og ég tók fram þá voru frv. um félagaréttarákvæði lögð fram á Alþingi, þ.e. hlutafélagalög, á 117. löggjafarþingi snemma sl. árs. Þau voru afgreidd fyrir örfáum vikum, rétt fyrir jólin. Í frv. var sérstaklega vísað til þáltill. þeirrar sem hv. þm. hafði flutt og skýrt frá með hvaða hætti tekið væri tillit til þeirra ábendinga sem þar komu fram. Menn voru sammála um afgreiðslu málsins á hinu háa Alþingi. Alþingi hefur því þegar afgreitt málið með vísan til þeirrar þáltill. sem hv. þm. flutti og gerði það án ágreinings. Það var enginn ágreiningur hér í hinu háa Alþingi um hvernig það væri gert þannig að Alþingi hefur sagt sitt síðasta orð.
    Hins vegar má vel vera að það sé rétt og skylt að taka málið upp aftur og taka það til endurskoðunar. En þá bendi ég á það sem kom fram í svari mínu áðan að í öllum þeim tilvikum þar sem það er gert eru menn eingöngu að tala um hlutafélög sem skráð eru á verðbréfaþingum viðkomandi landa. Af

10.000 hlutafélögum á Íslandi eru ekki skráð á Verðbréfaþingi Íslands nema 25 félög. Sú vernd sem minni hluti í félagi hlýtur í dag er þess vegna miklu meiri en sú vernd sem minni hluti myndi hljóta ef við fylgdum þeim erlendu fordæmum sem ganga lengra því þau takmarkast öll við það að viðkomandi félög séu skráð á verðbréfaþingi.