Áhættumat fyrir Reykjavíkurflugvöll

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:31:08 (4515)

[16:31]
     Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 665 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til samgrh.:
  ,,1. Hvað hefur verið gert í framhaldi af skýrslu nefndar frá nóvember 1990 sem vann að áhættumati fyrir Reykjavíkurflugvöll?
    2. Hefur verið ákveðið að fylgja eftir tillögum nefndarinnar um að öllu ferjuflugi og millilandaflugi verði beint til Keflavíkur?
    3. Ef tillögunum hefur verið hafnað, hvaða forsendur liggja þá að baki?``
    Nefnd þessa skipaði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrv. samgrh. 7. des. 1988 og í henni voru: Álfheiður Ingadóttir formaður, Guðjón Petersen, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins, Pétur Einarsson, fyrrv. flugmálastjóri, Þórður Þ. Þorbjarnarson, fyrrv. borgarverkfræðingur, og Jóhann Á. Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Flugmálastjórn. Þessi nefnd skilaði tillögum til samgrn. 30. nóv. 1990.
    Í lokaáliti nefndarinnar var mælt með því að öllu ferjuflugi og millilandaflugi einkaflugvéla öðru en sérstöku gestaflugi yrði beint til Keflavíkur. Bætt þjónusta við smærri flugvélar mundi einnig tengja innanlandsflug með farþega og frakt, til að mynda með ferskan fisk, við millilandaflug frá Keflavíkurflugvelli.
    Tillögur þessar, en þetta er ein tillagan í nefndarálitinu, eru byggðar á áhættumati nefndarinnar og mati á slysalíkum umhverfis flugvöllinn. Full samstaða tókst um tillögurnar í nefndinni.
    Tillögur nefndarinnar miða að því að draga úr augljósum áhættuþáttum, ónæði og mengun án þess að skerða mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sem miðstöð samgangna í innanlandsflugi sem þó er rétt að skoða nánar þó síðar verði. Ég vil því með tilvísun til ofangreinds spyrja ráðherra: Hver er framvinda þessa máls, hefur verið ákveðið að fylgja eftir tillögum nefndarinnar og ef svo er þá hvenær? Ef tillögunum er hafnað hvaða forsendur liggja þá að baki þeirri ákvörðun?