Varnir gegn mengun af útblæstri bifreiða og brennslu olíu og bensíns

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:58:07 (4525)


[16:58]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Mér er ljúft að staðfesta það að ég hef nokkuð gengið eftir því að tiltekin mál verði afgreidd úr hv. umhvn. án þess þó að ég vilji fallast á það að ég hafi endilega látið þrælapískinn ríða á hrygglengju þeirra sem þar sitja. En að því er varðar þessa fsp. þá vil ég þakka hv. þm. Guðrúnu Halldórsdóttur fyrir að hafa vakið máls á þessu mikilvæga efni. Í hennar inngangsorðum mátti e.t.v. ráða að hér væri fyrst og fremst um að ræða staðbundið vandamál þó ég viti vel að hún og Kvennalistinn geri sér grein fyrir því að hinar alvarlegustu afleiðingar mengunar af völdum útblásturs frá bifreiðum eru auðvitað miklu víðtækari, ná til veraldarinnar allrar eins og ég gat um í máli mínu áðan. Það er alveg ljóst að hálfur milljarður bifreiða víðs vegar um veröldina, sem spúir frá sér útblæstri, og í sumum heimsálfum a.m.k. sætir engum takmörkunum eins og við höfum þó þrátt fyrir allt hér á vestur- og norðurhveli jarðar, mun, ef ekkert verður að gert, leiða til þess að afleiðingarnar verða geigvænlegar. Ég gat um það í lokaorðum mínum áðan að gróðurhúsaáhrifin, sem ekki síst stafa af koltvíildinu sem kemur út úr bifreiðum og verður til við brennslu jarðefna, mun leiða til þess að veðrahjúpur jarðar mun hitna hægt og sígandi með tímanum. Nú þegar er merkjanleg aukning á hitastigi jarðar síðustu 100 árin. Þetta mun valda því að jöklar munu bráðna, sjávarborð mun hækka og eyríki í sunnanverðu Kyrrahafi, tiltölulega mörg, kunna á einhverjum tíma að hverfa algerlega undir yfirborð sjávar.
    Þetta kann líka að leiða til þess að það verða alvarlegar breytingar á hafstraumum á norðurhveli jarðar sem gætu leitt til þess sem ég kom aðeins inn á áðan, gætu leitt til þess að það verði ekki jafnbyggilegt hér á norðurhjara veraldar eins og er í dag, gætu leitt til þess að Golfstraumurinn mundi breyta farvegi sínum. Þá fer nú að sneiðast um hólmann þar sem barist er.