Varnir gegn mengun frá bifreiðum og vélum

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:15:06 (4531)


[17:15]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Sem svar við 1. lið fyrirspurnarinnar er þetta að segja: Á undanförnum árum hafa verið gerðar æ stífari kröfur til þeirra er framleiða hreyfla í bifreiðar um fullkomnari bruna eldsneytisins. Þá hafa verið gerðar kröfur um að afgas bensínhreyfla fari í gegnum efnahvarfa, hvarfakút, þar sem fram fer eftirbruni. Þessi búnaður vinnur allvel eftir að hreyfillinn hefur náð vinnuhita og hreinsast afgasið þá verulega.
    Framleiðendum dísilhreyfla hafa verið settar reglur um að framleiða hreyflana þannig að í afgasinu sé mun minna af mengandi efnum en áður gerðist. Fylgt hefur verið þeim stífustu reglum sem gilt hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í undirbúningi eru reglur innan Evrópusambandsins sem gera framleiðendum hreyfla og bifreiða að draga enn verulega úr mengandi efnum í útblæstri bifreiða. Ráðuneytið mun fylgja þessum nýju kröfum eftir þegar þær verða samþykktar. Um vinnuvélar, sem að mestu falla undir eftirlit Vinnueftirlit ríkisins, eru alþjóðlegir staðlar um mengun í útblæstri takmarkaðri.
    Sem svar við 2. tölul. spurningarinnar er þetta að segja: Við árlega aðalskoðun bifreiða með bensínhreyfli er kolsýringur í útblæstri mældur og því fylgt eftir að hann sé svo lágt hlutfall af afgasinu sem unnt er. Ekki hefur hins vegar verið farið út í að afskrá gamlar bifreiðar þótt framleiðsla hreyflanna sé

þannig að nokkurt magn kolsýrings sé í útblæstri, enda þessar bifreiðar farnar að eldast og koma fljótlega til með að úreldast. Tæknilega er illframkvæmanlegt að búa bifreið efnahvarfa ef hún hefur ekki verið framleidd með slíkan búnað. Við árlega aðalskoðun bifreiða með dísilhreyfli er athugað hvort óeðlileg sótmengun sé í afgasi bifreiðarinnar. Ef sótmengun er óeðlileg er umráðamanni bifreiðarinnar gert að bæta úr ágallanum.
    Að því er varðar 3. lið fyrirspurnarinnar er þetta að segja: Þegar bifreið er flutt til landsins eru lögð vottorð um að hún uppfylli kröfur um mengunarvarnir. Ýmis tæki, t.d. vélknúnar sláttuvélar, vélsleðar og vinnuvélar, eru flutt til landsins án þess að krafa sé gerð um vottorð varðandi mengun í útblæstri þeirra, enda í fáum tilvikum til alþjóðlegar eða svæðisbundnar kröfur til framleiðenda tækjanna sem um staðla er varða mengunarvarnir. Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja eru fjölmörg ákvæði um búnað ökutækja sem ætlað er að draga úr mengun af ýmsu tagi, t.d. hljóðmengun, rafsegultruflanir og útblástursmengun.
    Í undirbúningi eru ákvæði um neglingu hjólbarða. Fyrirhugað er að gera kröfur um léttari nagla en tíðkast hefur og draga þannig úr sliti á yfirborði akbrautar og þar með ryk- og tjörumengun. Í undirbúningi eru einnig allviðamiklar Evrópusambandsreglur um búnað tveggja og þriggja hjóla bifhjól þar sem m.a. er komið inn á mengunarvarnir. Ráðuneytið mun fylgjast náið með framvindu þessara reglna innan Evrópusambandsins og væntanlega taka þær upp þegar þær hafa verið samþykktar á þeim vettvangi.