Vernd barna og ungmenna

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:58:23 (4542)


[17:58]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið af hálfu frsm. nefndarinnar þá stendur nefndin sameiginlega að áliti um málið. Einnig stendur hún sameiginlega að því að gera nokkrar breytingartillögur við frv. sem gerð hefur verið grein fyrir.
    Eins og sjá má á nefndarálitinu þá skrifa fjórir nefndarmenn undir það með fyrirvara og þar á meðal ég og þykir mér rétt að gera grein fyrir í hverju sá fyrirvari er fólginn jafnframt því að fjalla almennt um málið.
    Eins og fram kemur í frv. er verið að gera breytingar á stjórnsýslunni í þessum málaflokki og í samræmi við álit nefndar sem skipuð var til þess að endurskoða umrædd lög. Í áliti nefndarinnar, sem dags. er 5. okt., er fjallað í stuttu máli um tillögur þær sem nefndin gerir en enn fremur segir undir lok álitsins, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin vekur athygli á því að sú leið var valin við samningu frumvarpsdraganna að leggja einungis til nauðsynlegar breytingar á lögunum til þess að umrædd skipulagsbreyting á stjórnsýslu málaflokksins geti komist á hið fyrsta. Það er hins vegar álit nefndarinnar að afar brýnt sé að endurskoða lögin í heild

sinni. Þess má t.d. geta að frá gildistöku laganna hefur vafi leikið á um túlkun einstakra lagaákvæða sem hafa mikla þýðingu fyrir málsmeðferð barnaverndarmála, til að mynda vistun barna í langtímameðferð. Af þessum sökum telur nefndin rétt að henni verði falið að halda áfram endurskoðun laganna.``
    Út frá þessu áliti og einnig athugasemdum sem koma fram í nokkrum umsögnum þá er ég þeirrar skoðunar að eðlilegast hefði verið að menn endurskoðuðu lögin í heild sinni og gerðu ekki frekari breytingar fyrr en menn hefðu heildstæðar tillögur í þessu efni. Ég hef þó fallist á að standa að afgreiðslu þessa máls með þeim fyrirvara að ég tel sem sé að menn eigi að vanda verkið og ljúka því að öllu leyti.
    Ég minni á að það eru ekki nema rúm tvö ár síðan við afgreiddum þessi lög, þau tóku gildi 1. jan. 1993, og það er ekki góð ending á starfi okkar hér að það skuli vera álit þeirra sem til þess eru fengnir að fara ofan í þessi verk að það þurfi að endurskoða lögin í heild sinni og ekki liðin tvö ár frá því að þau tóku gildi.
    Mér er nokkuð sárt um vinnubrögðin á þingi og ég leyni því ekki að mér finnst að hér sé oft á tíðum afar mikil fljótaskrift á meðferð mála. Ráðherrar draga það að leggja fram mál og leggja síðan ofurkapp á að þau verði afgreidd. Nefndirnar eru mjög aðþrengdar í störfum sínum og fá knappan tíma til að setja sig inn í mál og fá sérfróða menn til ráðuneytis. Þess sér stað í ýmsum lögum sem menn hafa verið að samþykkja hér og kannski sérstaklega í því að ráðherrar hafa fljótlega eftir að lögin hafa verið samþykkt komið fram með frv. til breytinga á þeim lögum. Það eru reyndar mörg dæmi önnur en þetta um lögin um vernd barna og ungmenna.
    Ég tel, virðulegi forseti, að hér eigi menn að leggja megináherslu á að líta á þessi mál í heild sinni. Það kemur fram m.a. í umsögnum að það er ljóst að það markmið hefur ekki náðst sem skyldi að lögin séu skýr hvað varðar skil á milli ráðuneyta og skil á milli ríkis og sveitarfélaga.
    Ég vil nefna að við meðferð málsins komu athugasemdir frá tveimur ráðuneytum sem er afar óvenjulegt, sérstaklega í ljósi þess að stjórnarfrumvörp eru lögð fram með samþykki allra ráðherra og ekki hafa komið fram við kynningu málsins við 1. umr. eða í þingskjalinu sjálfu neinir fyrirvarar af hálfu annarra ráðherra. Því kom það mjög á óvart að fá athugasemdir við málið frá bæði dómsmrh. svo og heilbrrh.
    Ég sá á viðverutöflu að heilbrrh. er staddur í húsinu, eða var það þegar ég sté í stólinn, og ég vildi því biðja hæstv. forseta að hlutast til um að kveðja ráðherra hingað í þingsal því mig langar að bera fyrir hann fyrirspurn um athugasemd þá sem hann lagði fram í þingnefndinni.
    Við upphaf málsins í nefndinni, 9. des., var lagt fram bréf frá ráðuneytinu þar sem greint var frá því að ráðherrann hefði tækifæri til að koma skoðunum sínum á frv. að við meðferð málsins og óskaði ekki eftir að gefa umsögn til félmn. að svo stöddu.
    Tveimur mánuðum síðar, eða 9. febr. sl., barst eftirfarandi bréf frá heilbrrh., með leyfi forseta:
    ,,Heilbr.- og trmrh. óskar eftir að gera eftirfarandi athugasemdir vegna þessa frv.:
    Í c-lið 10. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingu 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna þannig að félmrn. skuli sjá um að sérhæfð heimili og stofnanir séu tiltækar fyrir börn og ungmenni þegar úrræði barnaverndarnefnda hafa ekki komið að gagni. Hér sé átt við heimili og stofnanir þar sem fram fari sérhæfð meðferð svo sem vímuefnameðferð, vistun í bráðatilvikum vegna meintra afbrota og alvarlegra hegðunarerfiðleika. Slík heimili og stofnanir skulu rekin af ríkinu eða einkaaðilum undir yfirumsjón og eftirliti barnaverndarstofu.
    Ráðuneytið leyfir sér að lýsa áhyggjum sínum yfir því fyrirkomulagi sem þarna er ráðgert að taka upp og bendir í því sambandi á ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu, sbr. 24. gr. Verði umrætt frv. að lögum er hætt við að ágreiningur kunni síðar að rísa upp um það hvers konar stofnanir sé að tefla og undir hvaða aðila þær í raun heyri því augljóst hlýtur að vera að sérhæfð meðferðarstofnun fyrir t.d. vímuefnameðferð hlýtur að vera sjúkrastofnun samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.`` Undir þetta ritar Sighvatur Björgvinsson.
    Þarna er eðlilega vakin athygli á því að ágreiningur kunni að rísa um undir hvaða ráðuneyti tilteknar stofnanir kunni að heyra, heilbrrn. eða félmrn. Mig langar að bera þá spurningu fram við hæstv. heilbrrh. hvort þessi ágreiningur hafi verið leystur á milli ráðuneytanna og ef svo er á hvaða veg niðurstaðan sé. Undir hvaða ráðuneyti umræddar stofnanir og heimili muni heyra samkvæmt frv.
    Þetta þykir mér, virðulegi forseti, þýðingarmikið að liggi ljóst fyrir, sérstaklega þar sem ágreiningur hefur verið gerður um það við meðferð málsins. Það má ekki vera síðar þegar lögin hafa verið sett ágreiningur milli ráðuneyta um forræði heimila og stofnana. Sá ágreiningur mun efalaust fyrst og síðast bitna á sjúklingunum sem í hlut eiga.
    Í öðru lagi vil ég geta þess að mér finnst skilin á milli ríkis og sveitarfélaga hvað þetta verkefni varðar vera enn óljós og hef efasemdir um að rétt sé að afgreiða málið ekki betur úr garði gert hvað þetta varðar þó að ég hafi, eins og ég hef tekið fram, komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé rétt að tefja framgang málsins þrátt fyrir þessar efasemdir.
    Ég hef yfir höfuð efasemdir um það hvort rétt sé að sveitarfélög séu með þennan málaflokk og ef þau eru með hann að hve miklu leyti þau eiga að annast þessi tilteknu mál.
    Sú greining sem skín í gegnum lagafrv., að sérhæfðu úrræðin eigi að vera á höndum ríkisins, er umdeilanleg og menn þurfa að hafa nokkuð skýran lagatexta til þess að ekki verði um þessi skil deilt. Ég

hef efasemdir um það að svo flókin mál sem þessi, sem augljóslega verða ekki unnin nema með mjög sérhæfðum starfsmönnum, sé rétt að fela sveitarfélögunum. Þau eru bæði of mörg og of smá til þess að hægt sé að búast við því að þau geti almennt veitt þá þjónustu og búið yfir þeirra hæfni sem þegnarnir mega og eiga að krefjast. Ég því verið nokkuð hallur undir þá skoðun að í tilvikum og málum sem þessum ætti þetta að vera verkefni ríkisins sem það byggði upp á landsvísu með ákveðnum miðstöðvum. Mér finnst líka að röksemdafærslan fyrir því að hafa skiptinguna eins og hún er sé ekki alveg nógu sannfærandi, sérstaklega þegar litið er til þess að við athugun málsins er ríkishlutinn af verkefninu þannig saman settur að þeir einstaklingar sem ríkið er að annast koma að mestu leyti héðan af höfuðborgarsvæðinu sem aftur eru þau sveitarfélög sem hvað öflugust eru að mati þeirra sem vilja halda því fram að þetta eigi að vera hjá sveitarfélögunum. Mér finnst mótsögn í málflutningnum. Stóru sveitarfélögin sem menn telja að hafi afl til þess að sinna þessu vel koma af sér dýrasta þættinum af þessum málaflokki í hendur ríkisins. Fyrst það er niðurstaðan þá finnst mér það vera mjög til skoðunar hvort ekki eigi að stíga skrefið til fulls og færa það að fullu og öllu til ríkisins í takt við þær hugleiðingar sem ég setti fram hér áðan.
    Virðulegur forseti. Ég tel að það væri út af fyrir sig rétt við meðferð málsins að gera grein fyrir athugasemdum sem fram hafa komið og vil aðeins stuttlega drepa á þær án þess þó að rekja þær til neinnar hlítar en þó minnast á þær þannig að mönnum sé ljóst að þær hafi komið fram.
    Frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar kom umsögn þar sem m.a. var bent á það að þessi breyting á stjórnsýslu málaflokksins gerði kæruleið enn óljósari en hún er í dag og óskaði stofnunin eftir tilteknum breytingum.
    Þá komu fram athugasemdir frá Lögmannafélagi Íslands þar sem sett var fram sú skoðun að verið væri að skerða sjálfstæði barnaverndarnefnda að því er varðaði meðferð fósturmála og slík breyting ekki talin til bóta.
    Þá var bent á að með þessari breytingu væri verið að koma á nokkurs konar þriðja stjórnsýslustigi í þessum málaflokki og greinilega ekki tekið sterklega undir þá breytingu. Sama kom frá samtökunum Barnaheill varðandi það stjórnsýslustig sem felst í barnaverndarstofu. Þar var minnt á að þegar slíkt er gert þyrfti að gæta vel að því að kerfið í heild yrði ekki flóknara og svifaseinna en áður.
    Enn fremur var bent á að í lagatextanum vantaði öll ákvæði um stjórnskipulag barnaverndarstofunnar og skýrar reglur um stjórnsýslukærur. Samtökin leggja ríka áherslu á að vinnu við endurskoðun laganna sé fjarri því lokið.
    Frá félagsmálaráði Kópavogskaupstaðar barst umsögn sem var bæði jákvæð og hafði einnig að geyma athugasemdir. M.a. var gerð sú athugasemd að svo virtist sem barnaverndarstofa eigi að fara með eftirlit með og ráðgjöf við eigin stofnun auk þess að innan hennar ætti að starfa sérstakt fagteymi sem á að taka til meðferðar og umsagnar.
    Þá voru settar fram efasemdir um það hlutverk barnaverndarstofu að hafa umsjón með öflun hæfra fósturforeldra fyrir barnaverndarnefndir.
    Virðulegur forseti. Ég hef þá gert grein fyrir fyrirvara mínum við nál. og einnig skoðunum mínum varðandi hvernig ætti að byggja þennan málaflokk upp. Ég hallast helst að því að hér ættu menn að hafa málaflokkinn á hendi ríkisins og byggja hann upp faglega um allt land en alls ekki með einni miðstýrðri stöð.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, láta það koma fram að það var mér nokkurt undrunarefni þegar ég fékk þá vitneskju að í reynd væri búið að hrinda veigamiklum þáttum frv. þegar í framkvæmd, þ.e. stofna umræddar stofnanir sem frv. á að lögfesta. Ég get ekki látið hjá líða að hafa uppi gagnrýni á þessa málsmeðferð hjá hæstv. félmrh. Ég tel að menn verði að umgangast Alþingi með sæmilegri virðingu. Þó svo að staðreyndin sé sú að framkvæmdarvaldið sé það öflugt að það ræður mjög miklu um framgang mála þá var að mínu viti of langt gengið hér í því að líta svo á að afgreiðsla Alþingis væri formsatriði. Ég vil mælast til þess að hæstv. ráðherrar láti það ekki henda sig oftar að vera á undan Alþingi í þessum efnum.