Lyfjalög

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 19:08:38 (4563)

[19:08]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994. Í frv. eru þrjár efnisgreinar. 1. gr. fjallar um að óheimilt sé að auglýsa lausasölulyf í sjónvarpi en eins og vitað er hefur verið heimilað með lyfjalögum, sem samþykkt voru hér á Alþingi á sl. ári að auglýsa lausasölulyf, þ.e. lyf sem ekki þarf lyfseðil út á. Hins vegar var rætt um það í hv. heilbr.- og trn. þegar sú heimild var veitt að nefndin liti svo á að ekki væri þó heimilt að auglýsa lausasölulyf í áhrifamesta fjölmiðli landsmanna sem væri sjónvarpið. Það hefur hins vegar komið í ljós að eins og frá lögunum er gengið er ekki nógu ótvírætt að auglýsing lausasölulyfja í sjónvarpi sé bönnuð. Mér er sagt að það hafi komið fram í heilbr.- og trn. Alþingis þegar hún hafði málið til meðferðar í fyrra að ef léki einhver vafi á því að auglýsing lausasölulyfja í sjónvarpi væri ekki heimil yrði að taka af þann vafa með lagasetningu. Þar sem á því leikur vafi nú að áliti heilbrrn. er ekki um annað að ræða en leggja fyrir nefndina tillögu um að af því verði tekinn allur vafi og er það gert í 1. gr.
    Þá gerðist það í meðförum nefndarinnar í fyrra að vegna vangár féllu niður refsiákvæði í frv. og er gerð tillaga um að þau verði sett inn í gildandi lög og það er efni 2. gr.
    Í 3. gr. er gerð tillaga um að ráðherra verði heimilt að setja í reglugerð ákvæði um takmörkun og eftirlit með framleiðslu og markaðssetningu tiltekinna efna sem nota má við ólöglega framleiðslu á ávana- og fíkninefnum. Talið er nauðsynlegt að fá þessa heimild inn í lög þar sem Evrópusambandið hefur nú þegar sett sérstaka tilskipun um þetta efni sem er tilskipun ráðsins nr. 92/109 frá 14. desember 1992 en höfð verður hliðsjón af þeirri tilskipun þegar reglugerð verður sett hér á landi. Ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því að hv. heilbr.- og trn., sem fær málið væntanlega til meðferðar, fái eintak af þessari tilskipun og geti þá kynnt sér það með hvaða hætti reglugerðin verði sett.
    Þá fylgir í fskj. umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjmrn., þar sem ekki verður séð að frv. hafi nein áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér síðan að leggja til að frv. þessu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.