Greiðsla á bótum til þolenda afbrota

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 19:12:07 (4564)


[19:12]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota á þskj. 659. Frv. er flutt í framhaldi af samþykkt Alþingis á þáltill. frá því í maí 1993 en 1. flm. þeirrar tillögu var hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, formaður allshn.
    Meginmarkmið frv. er að styrkja stöðu brotaþola með þeim hætti að ríkissjóður greiði bætur fyrir líkamstjón og miska vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum, svo og fyrir tjón á munum sem leiðir af slíku broti enda sé viðkomandi vistaður á stofnun ríkisins vegna afbrots eða gegn vilja sínum. Bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum og tjónvaldur er dæmdur til að greiða tjónþola er í flestum tilvikum ekki raunverulegt verðmæti þar sem tjónþoli hefur í fæstum tilvikum möguleika á að greiða bæturnar og í mörgum tilvikum að hann hafi í náinn framtíð möguleika til þess. Meginákvæði frv. er að ríkið greiði bætur vegna líkamstjóns og miska sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum. Almennt er það skilyrði að brotið sé framið innan lögsögu íslenska ríkisins.
    Frv. gerir ráð fyrir því að ákvörðun um greiðslu bóta verði tekin af sérstakri nefnd, bótanefnd, og miðað er við að nefndin ákveði hvort skilyrði bótagreiðslu sé til staðar og fjárhæð bóta. Þegar dómur hefur gengið um bótakröfuna er almennt miðað við að bætur verði greiddar í samræmi við niðurstöður hans.
    Að öðru leyti, herra forseti, vísa ég um efni frv. til þeirra athugasemda sem með fylgja. Ég bendi á fskj. um dóma sem dæmdir hafa verið í Héraðsdómi Reykjavíkur á árunum 1993 og 1994 og gætu fallið undir ákvæði frv.
    Ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.