Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 19:21:09 (4567)


[19:21]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Það frv. sem liggur fyrir til breytinga á lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands er flutt til samræmis við annað frv. sem er til meðferðar á hinu háa Alþingi um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Meginefni beggja þessara frumvarpa lýtur að því að heimila svokallaða óbeina eignaraðild að sjávarútvegsfyrirtækjum. Eins og kunnugt er eru gildandi lög þess eðlis að erfitt hefur reynst að framkvæma þau. Hér er ekki gert ráð fyrir því að leyfð verði bein eignaraðild útlendinga að sjávarútvegsfyrirtækjum heldur stigið þetta mjög svo takmarkaða skref.
    Herra forseti. Ég vísa svo að öðru leyti til athugasemda með frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.