Raforkukostnaður garðyrkjunnar

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 15:16:31 (4574)


[15:16]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Samanlagt flatarmál gróðurhúsa á Íslandi er um 170 þúsund fermetrar. Verðmæti gróðurhúsanna er talið vera um 1,8 milljarðar kr. og eru þá ekki meðtaldar þær 400 millj. kr. sem felast í í aðstöðuhúsum né þau verðmæti sem bundin eru í íbúðarhúsum. Á árinu 1990 var framleiðsluverðmæti blóma og grænmetis um 1 milljarður kr. Heilsársstörf eru talin vera um 350 í þessari framleiðslu, auk um 200 sumarstarfa. Ef reiknað er með að tvö störf í þjónustu tengist hverju ársstarfi í frumframleiðslu má gera ráð fyrir að á annað þúsund manna vinni við garðyrkjuna. Þessi framleiðsla hefur aldrei notið styrkja svo að neinu nemi né verðábyrgða.
    Það er alveg ljóst að rekstrarskilyrði garðyrkjunnar eru ekki ásættanleg í því markaðsumhverfi sem hún býr við. Íslensk garðyrkja er að keppa við erlenda garðyrkju sem nýtur verulegra styrkja. Í skýrslu sem Markús Möller vann fyrir landbrn. kemur fram að þessir samkeppnisaðilar njóta styrkja sem nema um 10--20% af framleiðsluverðmæti og að byggingarkostnaður er mun hærri hér en í garðyrkju samkeppnisaðilanna.
    Eins og rekstrarumhverfi græna geirans er nú hér á landi er útflutningur afurða ekki mögulegur. Sem dæmi um þetta get ég nefnt að sl. haust athugaði einn garðyrkjubóndi í Hveragerði möguleika á að flytja blóm til Svíþjóðar og selja þar. Markaðurinn og áhugi Svía var fyrir hendi en hvernig sem reiknað var reyndist það verð sem bóndinn þurfti að fá fyrir afurð sína um 20% of hátt miðað við verðlag í Svíþjóð og þar var ekki síst um að kenna of háu orkuverði. Við það bætist að Ísland samdi eitt ríkja um einhliða innflutningsheimildir í EES. Þann fórnarkostnað sem af þeim hlaust hafa íslenskir garðyrkjubændur orðið að bera bótalaust ef frá eru talin tolla- og gjaldaniðurfelling á rekstrarvörum, svo sem perum og græðlingum. Enn hefur ekki verið tekin ákvörun um útfærslu tollígilda á garðyrkjuafurðum vegna GATT-samninga og á meðan svo er hangir framtíð íslenskrar garðyrkju í lausu lofti.
    Aðstæður á markaði og fyrirsjáanleg opnun markaðarins vegna EES og GATT-samninganna hafa hvatt framleiðendur í garðyrkju til að hagræða í rekstri og fjárfesta í lýsingar- og kolsýrubúnaði til að auka nýtingu annarra fjárfestinga og lækka framleiðslukostnað. Þrátt fyrir þessar aðgerðir er rekstrarumhverfi garðyrkjunnar með þeim hætti að útflutningur er, eins og ég sagði áðan, ekki mögulegur sem er bagalegt vegna þess að framleiðslugeta fyrirtækjanna er töluvert meiri en sem svarar eftirspurn innan lands. Það segir þó ekki alla söguna. Til þess að geta nýtt fjárfestingarnar og sinnt innanlandsmarkaði á veturna þarf að lýsa á ræktunina. Hér á landi þarf t.d. um helmingi meiri orku en í Hollandi til að framleiða sama magn afurða á tímabilinu frá október til marsloka miðað við sömu gæði.
    Þegar orkukostnaður garðyrkjustöðva er skoðaður kemur fram að orkan er of stór hluti af rekstrarkostnaði þeirra miðað við aðstæður á markaði og í raforkumálum. Nú er orkan að meðaltali um 15% af rekstrarkostnaði garðyrkjustöðva. Frá 1. jan. 1993 hefur verið í gildi samningur milli garðyrkjubænda og Landsvirkjunar um kaup á svokallaðri umframorku í gegnum orkukaupasamlög. Samkvæmt þessum samningi fá þeir einnar krónu afslátt á hverja kwst. sem þeir kaupa umfram þá orku sem þeir keyptu 1992. Garðyrkjubændur telja eðlilegra að miða við notkun ársins 1990, en með því yrði meira tillit tekið til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Þessi breyting á viðmiðunarári mundi skila garðyrkjunni um 7 millj. kr. á ári í afslátt í stað tæpra 3 millj. miðað við orkunotkun síðasta árs.
    Stærstur hluti raforku sem notaður er til gróðurlýsinga er nú keyptur samkvæmt víkjandi taxta. Í því felst að Rariks gefur rofið raforku til lýsingar þegar orkukaup Rarik frá Landsvirkjun eru umfram umsamið afl. Á meðan á þessu rofi stendur verða garðyrkjubændur að greiða þrefalt verð fyrir orkuna. Mikil rof þýða einnig að það dregur úr gæðum vörunnar og jafnvel að hún ónýtist.
    Þegar samningur garðyrkjubænda og Landsvirkjunar var gerður var miðað við að roftími taxta víkjandi orku yrði um 200 klukkustundir. Roftími síðasta árs var hins vegar 339 klukkustundir og í dag er roftíminn kominn yfir 230 klukkustundir frá áramótum. Nú er daglegur roftími í Hveragerði t.d. 14 klukkustundir á dag og honum fylgir veruleg hækkun á orkukostnaði fyrir þá bændur sem verða að lýsa á þeim tíma. Þetta gerist þrátt fyrir næga raforkuframleiðslu og flutningsgetu kerfisins.

    Í fyrradag var einhver mesti blómasöludagur ársins, en vegna tíðra rofa og lágrar spennu er framleiðslan langt frá því að vera nægjanleg og gæði blómanna minni en væri ef eðlileg lýsing hefði náðst. Garðyrkjan ræður einfaldlega ekki við að greiða þetta háa orkuverð við þau skilyrði sem henni eru búin.
    Rarik óskaði eftir því við Landsvirkjun nú í haust að aflkaupum þeirra yrði breytt þannig að roftíminn þyrfti ekki að vera óeðlilega mikill. Þeirri ósk var hafnað. Ég spyr iðnrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir því að samningar Rariks og Landsvirkjunar verði endurskoðaðir vegna þess hve tíð rof hafa verið hjá notendum víkjandi orku á þessu og síðasta ári og hvort komið verði í veg fyrir að garðyrkjubændur séu beittir refsigjaldi vegna gróðurhúsalýsinga á roftíma. Það er vitað hver orkunotkun garðyrkjunnar þarf að vera hjá hverri veitu fyrir sig og ætti þess vegna að vera hægt að undanskilja garðyrkjuna þegar gripið er til roftíma. Garðyrkja er þýðingarmikil atvinnugrein hér á landi og það verður að skapa henni skilyrði í samræmi við þá stöðu.
    Samband garðyrkjubænda hefur óskað eftir því að viðmiðunarmörk raforkusamninga þeirra verði færð aftur og að raforkuverð til lýsinga verði lækkað verulega. Ég spyr iðnrh. hvort hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir lækkun á orkuverði til garðyrkjunnar í samræmi við óskir þeirra. Mun ráðherra beita sér fyrir því að gerðir verði fastir orkusölusamningar við garðyrkjubændur sem tryggi þeim eðlilegan aðgang að orku á sanngjörnu verði sem taki mið af markaðsskilyrðum?