Raforkukostnaður garðyrkjunnar

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 15:34:52 (4579)


[15:34]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Það er orðið ærið oft sem við stöndum frammi fyrir umræðu á hv. Alþingi einmitt um garðyrkjuna. Það var síðast fyrir forgöngu hv. 5. þm. Suðurl., Guðna Ágústssonar, 31. okt. að mig minnir og síðan er aðeins nokkuð á fjórða mánuð.
    Eins og komið hefur hér fram hefur enn ekkert gerst í þessum hlutum og það er nú orðið mál hjá hæstv. ráðherra þar sem styttist í valdastöðu hans að fara að gera eitthvað nema hann sé búinn að tryggja sig fyrir næstu fjögur ár. Það kemur í ljós innan skamms sem vonandi verður nú ekki.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði áðan það sem segja þurfti. Hann gat um að hv. 4. þm. Suðurl., Margrét Frímannsdóttir, hefði einnig þurft að spyrja landbrh. og utanrrh. við þetta tækifæri.
    ( Forseti (VS) : Hæstvirta.)
    Hæstvirta. Hins vegar hefði hv. þm. Páll Pétursson getað bætt því við að hann hefði að sjálfsögðu ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur verið duglegur við að styðja hæstv. utanrrh. Jón Baldvin og þessa ágætu menn í EES og öllu því þangað til ég fór að styðja hæstv. utanrrh. Jón Baldvin.
    Virðulegi forseti. Það er orðið mál að tekið sé á vandamálum þessa atvinnuvegar, garðyrkjunnar og þó fyrr hefði verið. Hún var lamin niður með samningunum í EES þegar garðyrkjunni var fórnað sem skiptimynt í samningum um sjávarútveg. Hvenær á að taka þetta til baka og laga stöðuna? Það er sannarlega orðið mál og við skulum vona ef hæstv. ráðherra kemur þessu ekki af áður en hann fer að við fáum meira líf í þessa hluti og betri ráðherra til að taka á þessum málum.