Raforkukostnaður garðyrkjunnar

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 15:49:16 (4585)


[15:49]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara út í umræðu um Evrópusambandið enda heyrir það ekki til þessu ráðuneyti þó að sá sem hér stendur sé stuðningsmaður þess að EES-samningurinn hafi verið gerður og telur að hann hafi verið til mikilla heilla fyrir þjóðina. En ég vil aðeins minna menn á það að á þeim tíma þegar þau mál voru í deiglunni var rætt um innflutning á ákveðnum framleiðsluvörum gróðurhúsa á tilteknum árstíma þegar slík ræktun átti sér ekki stað við þær aðstæður sem þá voru. Það sem hefur síðan breyst er það að gróðurhúsaframleiðendur eru farnir að stunda framleiðslu allt árið, m.a. með gervilýsingu yfir köldustu mánuðina.
    Ég vil aðeins vekja athygli manna líka á því að rof Rarik byggjast m.a. á samningum um afláskrift Rarik við Landsvirkjun og iðnrn. hefur haft milligöngu um það að óska eftir því að Landsvirkjun endurskoði þá samninga við Rafmagnsveitur ríkisins til þess að draga úr rofþörfinni. Landsvirkjun hefur svarað því til að hún sé reiðubúin að gera það en hún þurfi þá að fara í viðræður um þau mál við aðra dreifendur orku en bara Rarik. Ég lít því svo á eða bind a.m.k. vonir við það að sú málaleitun okkar skili árangri.
    Þá var einnig rætt um það hvort möguleiki væri til þess að fá hliðstæða samninga fyrir gróðurhúsaframleiðendur og t.d. eigendur fiskimjölsverksmiðja. Ég bendi hv. þm. á að ég hef ekki boðvald yfir Rarik. Rarik er sjálfstætt fyrirtæki og ríkið á minni hluta í því fyrirtæki. Ég hef komið ýmsum ábendingum og beiðnum á framfæri við Landsvirkjun, t.d. varðandi húshitun á köldum svæðunum sem Landsvirkjun hefur ekki virt nema að hluta til. Landsvirkjun er sjálfstæð stofnun sem verður að taka um þetta sjálfstæða ákvörðun.
    Ég lýsi því hins vegar yfir að ég vil gjarnan stuðla að því að þetta stóra rannsóknarverkefni nái fram að ganga en því er ætlað að leita svars við þeirri spurningu hvort garðyrkjan geti greitt verð sem skili raforkufyrirtækjum framlegð af orkusölu til lengri tíma. Það er auðvitað það sem við verðum að stefna að að sé hægt. Við þurfum að kanna það hvort möguleiki sé á því með gervilýsingu að skila íslenskum orkufyrirtækjum því verði til lengri tíma sem þau þurfa að fá. Þessi rannsókn þarf að fara fram til þess að leiða það í ljós og ég er reiðubúinn að standa að því.