Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 16:30:11 (4590)


[16:30]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. er greinilega alveg sammála mér þannig að ég tel svo sem enga ástæðu til þess að eiga við hann langar orðræður um þetta mál. Ég er alveg sammála honum um það að það sem skiptir máli er að menn lagi sínar ákvarðanir í efnahagsmálum eftir þeim aðstæðum sem eru í

þessu landi og það hafa menn gert á síðustu árum og áratugum, breytt mjög verulega rekstrarformum fjölmargra fyrirtækja miðað við það sem lagt var af stað upp með þau í öndverðu. Ég held að aðalatriðið sé að menn átti sig á því að hinn hrái kapítalismi sem hefur verið rekinn á Bretlandseyjum er óframkvæmanlegur. Hægri stefnan sem Sjálfstfl. hefur viljað reka að nokkru leyti á Íslandi hefur reynst óframkvæmanleg vegna þess að hún hefur haft það í för með sér að atvinnuleysingjarnir á OECD- og Evrópusvæðinu eru tugir milljóna. Má segja að það séu þau kaflaskipti í stjórnmálum heimsins að það séu svo að segja allir að átta sig á því að hinn hrái kapítalismi hægri stefnunnar sem Sjálfstfl. og forusta hans boðaði að nokkru leyti eftir landsfund Sjálfstfl. 1991, hin harða hægri stefna, hefur beðið skipbrot og ég held að það sé mjög mikilvægt að átta sig á því að menn sjái hlutina í því samhengi að sú stefna er ekki framkvæmanleg og síst af öllu hér á landi.