Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 17:18:27 (4598)


[17:18]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir hans útskýringar. Ég er honum alveg sammála um það að óheftur markaðsbúskapur leiðir yfir okkur stórfelld vandræði og eins og raun ber nú vitni í Evrópu þar sem þessi þróun er langt fram gengin og þó enn verið að ýta þar undir með því að taka höft og hömlur úr vegi markaðarins þar sem atvinnuleysið er að verða 20 millj. manna og viðurkennt í rauninni af forráðamönnum Evrópusambandsins að ekki séu neinar líkur á því að uppsveifla í hagkerfinu höggvi í þennan fjölda atvinnuleysingja. Það er það sem menn standa í rauninni ráðþrota frammi fyrir, þeir hinir sömu og ríghalda í fjórfrelsi Rómarsáttmálans.
    Ég er ekki í vafa um að hér á landi eru stjórnmálaöfl sem vilja taka málin með öðrum hætti, ekki aðeins innan Alþb. heldur líka í öðrum flokkum og í Framsfl. þar á meðal. En það bara gengur ekki upp þegar menn eru búnir að kasta frá sér möguleika á því að setja lög í landinu í sambandi við það svið sem hið Evrópska efnahagssvæði tekur yfir. Hv. þm. veit auðvitað nákvæmlega að það þýðir ekkert að reyna það nema þá um leið að menn átti sig á því að þeir eru að leggja til atlögu við þennan samning sem hér var innleiddur frá ársbyrjun 1994. Þetta er hinn kaldi veruleiki, virðulegur forseti.