Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 17:20:23 (4599)


[17:20]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það gefst sjálfsagt tími til þess síðar að ræða enn frekar um samninga okkar Íslendinga við aðrar þjóðir, alþjóðlega samninga og þar með talið EES-samninginn. Ég ætla ekki frekar en orðið er að blanda honum inn í þessa umræðu. En ég vil árétta enn frekar að ég tel að þrátt fyrir allt sé t.d. bara að finna í þessu frv., þó að það megi kannski telja það undarlegt að það skuli koma frá þessari hæstv. ríkisstjórn., kannski að það örli enn þá eitthvað á jafnaðarmannahugsjóninni hjá einhverjum hæstv. ráðherrum, stuðningur við uppbyggingu atvinnulífs. Þannig að stjórnvöld og opinberir aðilar sjái sig þó eftir allt og enn knúin til þess. Þrátt fyrir yfirlýsingar sem við höfum oft hlýtt á frá hæstv. ráðherrum núv. ríkisstjórnar um það að atvinnulífið verði bara að bjarga sér og menn hverfi frá öllu sem þeir hafa kallað sjóðasukk og ég veit ekki hvaða heiti þeir hafa gefið stuðningi við atvinnulíf með opinberum aðgerðum er eins og hér örli þó reyndar á, að viðurkenna að það sé nauðsynlegt að aðstoða atvinnulífið. Það er eitt af því sem menn þurfa að gera og hljóta að gera þegar þeir verða að bregðast við með einhverjum hætti því alvarlega atvinnuleysi sem hefur verið að berja hér að dyrum hjá okkur. Ég vænti þess að stjórnvöld muni áfram hafa að leiðarljósi baráttu gegn atvinnuleysinu. Ég vænti þess a.m.k. að ríkisstjórn sem Framsfl. kynni einhvern tíma að eiga aðild að muni áfram eins og áður hafa það að meginmarkmiði að losna við atvinnuleysið, að það sé atvinna fyrir alla í þessu landi. Það er rétt sem kom fram hjá hv. 4. þm. Austurl. að því miður standa þessar þjóðir sem við erum oft að bera okkur saman við frammi fyrir því nánast ráðþrota að búa við 10, 15, 20% atvinnuleysi. Það er alvarlegt vandamál. En ég hef heyrt fulltrúa þessara þjóða og efnahagsráðgjafa þessara þjóða lýsa því yfir að það sé óásættanlegt ástand og við því verði að bregðast.