Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 17:45:03 (4609)


[17:45]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að sú umræða sem hér hefur farið fram hafi skýrt þetta mál nokkuð, ekki síst með hliðsjón af þeim fyrirspurnum sem hv. 4. þm. Austurl. bar fram til hæstv. ráðherra. Það er auðvitað bersýnilegt að það verður að leggja dálitla vinnu í þetta mál áður en hægt verður að afgreiða það og það verður örugglega reynt að gera það í hv. iðnn. eins og kostur er.
    Hér hefur ýmsum spurningum verið svarað, en það er þó ýmislegt sem þarf að skoða betur. Í því sambandi nefni ég í fyrsta lagi að við þurfum auðvitað að fara yfir efnahagsreikning Iðnþróunarsjóðs til þess að átta okkur á stöðu sjóðsins og möguleikum hans til þess að veita stuðning, lán og annað til þeirra verkefna sem talin eru upp í 2. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir vissum breytingum á 2. gr. gildandi laga nr. 9/1970. Það er mál sem við verðum að fara mjög rækilega yfir til að átta okkur á því að ekki sé sjóðnum ofboðið né heldur sé þannig tekið á málum að þar sé óþarflega skammt gengið. Það er auðvitað hlutur sem hv. iðnn. verður að leggja sitt mat á.
    Í öðru lagi er nauðsynlegt að átta sig á því hvort það er hugsanlegt að ná samkomulagi um það að einhverjir aðilar tilnefni í þá stjórn sem sjóðnum yrði skipuð, hvort sem það væru einn, tveir eða þrír aðilar sem þar kæmu við sögu. Ég hef í sjálfu sér ekki neinar hugmyndir eða tillögur um það á þessu stigi málsins, en ég er út af fyrir sig hlynntur því að framkvæmdarvaldið beri ábyrgð á stjórnum sjóða þannig að ég geri engar kröfur um það og dettur ekki í hug að flytja neinar tillögur um að Alþingi kjósi stjórn í svona sjóði. En ég hefði viljað hafa skoðun á því hvernig best væri að fara í málið og mér finnst allt í lagi að hæstv. ríkisstjórn hafi eitthvert samráð við iðnn. eða Alþingi um það mál eða þá að greininni verði beinlínis breytt þannig að þar verði um að ræða tilnefningu frá einhverjum aðilum varðandi stjórn sjóðsins.
    Ég tek hins vegar undir það að ég tel að það sé alveg ástæðulaust að bankarnir séu með fulltrúa í þessari sjóðstjórn. Ég er hlynntur því að fella það niður og ég tel að það sé út af fyrir sig mikill ávinningur fyrir iðnaðinn að ná þó þessu tangarhaldi á sjóðnum sem hér er gert ráð fyrir að gera þó að það sé ekki nema til bráðabirgða.
    Þriðja atriðið sem mér finnst að þurfi að skoða vel, aðeins betur, en ég átta mig ekki almennilega á hvernig menn hugsa sér það, er gildistökuákvæðið. Mér finnst það dálítið skrýtið og mér finnst ég ekki hafa fengið nægilega skýr svör við því hér og er í sjálfu sér ekki að ætlast til þess. Við þurfum bara að fara rækilega yfir þetta í hv. nefnd. En hér stendur: ,,Lög þessi öðlast gildi 9. mars 1995. Jafnframt fellur brott fylgiskjal með lögum nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð.`` Þ.e. fylgiskjalið sem hefur lagagildi félli úr gildi um leið og þetta frv. yrði samþykkt og yrði að lögum. Síðan er gert ráð fyrir því að þetta frv., ef að lögum verður, gildi ásamt því sem eftir er af gildandi lögum nr. 9/1970 og þannig að um verði að ræða samsuðu úr þessari 25 ára gömlu löggjöf annars vegar og hins vegar úr þessum textum hér. Það er hlutur sem hv. iðnn. verður að lesa saman og átta sig á því hvort eðlilegt og nauðsynlegt er að fella þetta í eina heild þannig að hv. Alþingi átti sig aðeins betur á því en kostur er á hér hvað það væri að gera með því að samþykkja þetta frv. eins og það liggur fyrir.
    Ég vil, hæstv. forseti, leggja áherslu á að við skoðum efnahagsreikning stofnunarinnar, að við skoðum stjórnskipun hennar og að við skoðum gildistökuákvæðið. Ég verð að segja eins og er að ég tek undir með hv. 4. þm. Austurl. að mér finnst koma til greina að menn fjalli aðeins betur um hversu langan tíma þessi lög gilda. Mér finnst koma til greina að kannski sé það ekki nákvæmlega þann tíma sem verið er að tala um í frv. heldur e.t.v. einhvern lengri tíma þannig að menn eigi kost á því að meta stöðuna aðeins betur.
    Sömuleiðis er hugsanlegt að setja inn í frv. nauðsynleg reglugerðarákvæði. Ég ætla ekki að blanda mér frekar í þá umræðu sem hér hefur hefur farið fram um þessi mál sem hefur borist vítt um en legg á það áherslu að reynt verði að standa almennilega að afgreiðslu þessa máls í hv. iðnn. Það liggur fyrir frá hæstv. iðnrh. að þó að hv. iðnn. afgreiði málið þá sé hún ekki að skrifa upp á atvinnustefnu núv. ríkisstjórnar. Ég tel afskaplega mikilvægt fyrir hv. iðnn. að það liggi fyrir að hún sé sýknuð af því að bera nokkra ábyrgð á atvinnustefnu núv. ríkisstjórnar.