Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 18:08:24 (4617)



[18:08]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Alþb. er því mjög kunnugur eftir setu sína á Alþingi að það er síður en svo einsdæmi að þingfundur sé haldinn samtímis fundi í þingnefnd. Ef sérstaklega stendur á þá er gömul hefð og venja fyrir því. Þetta er laukrétt líka hjá hv. þm. að það kemur fyrir að þess sé sérstaklega óskað að mál sé ekki tekið fyrir á sama tíma og nefndarfundur er og þá eru færðar fyrir því sérstakar ástæður. Það sem hér er um að ræða er að á dagskrá er nú framsöguræða með þáltill. um breytingar á flugmálaáætlun. Það fer að líða að lokum þessa þinghalds og spurningin er um að koma þessu máli til nefndar. Málið er gamalkunnugt og ég get ekki séð að þótt fundur sé nú í allshn., ( Gripið fram í: Hann er búinn.) fundurinn er þar að auki búinn, þá væri það ástæða til að synja um umræður um slíkt mál.