Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 18:17:30 (4622)


[18:17]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Þessi tillaga um breyting á þál. um flugmálaáætlun er tilkomin vegna breytinga á tekjustofnum til flugmála sem gerðar voru við fjárlagagerð í vetur þar sem var ákveðið að peningar úr þessum tekjustofni yrðu notaðir til að fjármagna rekstur flugvalla jafnt sem framkvæmdir við flugvelli. Nú er auðvitað verið að skera niður vegna þessara ákvarðana um 40 millj. og kemur misjafnlega niður og hefði verið ástæða til þess að ræða það kannski svolítið fyrr hvort menn væru sammála þeim áherslum sem þarna koma fram. Kannski hefðu menn þá ekki verið sammála því að fara þessa leið sem var þó ákveðin í vetur við afgreiðslu á fjárlögunum ef þeir hefðu séð hvaða liðir yrðu fyrir barðinu á niðurskurðinum. En Flugmálastjórn hefur séð sig knúna til þess að breyta verulega sínum framkvæmdum í framhaldi af þessari ákvörðun frá í vetur.
    Ég ætla út af fyrir sig ekki að gagnrýna það að þessi þáltill. um breyting á flugmálaáætlun komi fram. Það er auðvitað góður siður að breyta áætluninni úr því að svona var að farið, en út af fyrir sig hefðu ákvarðanirnar staðið þó að þessi þáltill. hefði ekki komið fram eða verði ekki afgreidd. Það er ekki mjög langur tími til stefnu fyrir hv. nefnd og þingið að klára þau mál sem liggja fyrir og hér kemur eitt til viðbótar. Ég reikna með því að nefndarmenn séu allir af vilja gerðir til þess að fara yfir það og skoða, en það verður auðvitað að sýna sig hvort tíminn verður nægur.
    En það er athyglisvert að sjá að sumar framkvæmdir hverfa eða verða mjög fyrir barðinu á þessum niðurskurði. Þarna eru 15 millj. skornar niður t.d. á Sauðárkróki og ég geti ekki ímyndað mér annað en það hafi töluverð áhrif á rekstur flugvallarins þar. Ég ætla ekki að fara yfir einstaka liði neitt sérstaklega. Ég vil bara segja að mér þykir það vont að menn skuli koma með þessi mál svona seint inn í þingið og mér finnst að það sé gagnrýnisvert að mál eins og þetta, sem hefur legið fyrir að þyrfti að flytja allt frá því að fjárlögin voru samþykkt, skuli ekki hafa komið inn í þingið fyrr. Það er sú aðalgagnrýni sem ég vil færa hér fram og fyrst og fremst þess vegna sem ég stend hér upp því ég get auðvitað fjallað um málið í nefndinni þegar þar að kemur. En fyrst og fremst vil ég koma þeirri gagnrýni á framfæri sem ég var að nefna um það að undirbúningur þessa máls þurfti ekki að verða mjög langur eftir að búið var að samþykkja fjárlögin með þessum breytingum. Það er vonandi að hæstv. ráðherra svari til um það hvernig á því stendur að málið ber að svo seint þegar komið er alveg að lokum þingstarfa.