Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 18:25:00 (4624)


[18:25]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða um till. til þál. um flugmálaáætlun. Ég held að það sé rétt eins og hér hefur komið fram að hún kemur fram kl. 11.30, ef við megum orða það svo, hvað tíma þingsins varðar. Ég verð að segja að ég er vægast sagt óánægður með framvindu þessara mála og það sem lýtur að flugmálaáætlun, vinnu við flugmálaáætlun og alla umræðu um störf flugráðs og þeirra sem með málefni flugvalla fara.
    Ég hef margsinnis innt eftir því í störfum mínum í samgn. þingsins í allan vetur við formann nefndarinnar að samgn. fengi til viðtals við sig á fund nefndarinnar fulltrúa flugráðs eða flugmálastjóra til þess að samgn. gæti sett sig ofan í þau mál og þær hugmyndir sem verið hafa á sveimi í allan vetur um niðurskurð á framkvæmum til flugmála. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég velti því fyrir mér hver réttur venjulegs þingmanns er í þessum efnum. Síðan kemur hæstv. samgrh. hér á lokadögum þingsins með plagg sem hann nefndir flugmálaáætlun og mér er hreint óskiljanlegt hvernig hann ætlar að sigla þessu máli áfram og hann hlýtur að þurfa að svara því hér og nú, annaðhvort hæstv. samgrh. eða þá formaður samgn.
    Það vekur athygli mína eins og fleiri sem hér hafa talað og ég tek undir það sem hér kom fram áðan hjá hv. 6. þm. Vestf., Jónu Valgerði Kristjánsdóttur, þar sem hún vék að framkvæmafé til flugvallarins á Sauðárkróki og að þar væri hnífnum skarpast beitt. Það er umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn Norðurl. v. að það skuli vera einmitt undir embættisfærslu núv. hæstv. samgrh. Halldórs Blöndals sem niðurskurðarhnífnum er jafnmiskunnarlaust beitt á framkvæmdafé í Norðurl. v. Minnugur mætti hann vera þess, hæstv. núv. samgrh., að það voru þingmenn Norðurl. v. sem fluttu stórkostlegar fjárveitingar af framkvæmdum úr sínu kjördæmi til þess að liðka til að byggja upp og flýta framkvæmdum á uppbyggingu vegarins á sínum tíma yfir Öxnadalsheiði.
    Það var auðvitað hagsmunamál okkar einnig og okkar skilningur að það væri þarft verk. En það er út af fyrir sig eins og ég segi merkilegt mál að það skuli ekki aðeins í samgöngumálum sem það kjördæmi fær harðasta útreiðina af öllum í vegamálum heldur er það einnig í flugmálunum. Þar er skorið niður framkvæmdafé til flugvallarins á Sauðárkróki um 15 millj. kr.
    Ég vildi einnig spyrja hæstv. samgrh. að því að í flugmálaáætlun fyrir sl. ár var áætlað að verja um 9 millj. kr. til framkvæmda við Sauðárkróksflugvöll. Ég hef spurt um það í samgn. og að sjálfsögöðu ekki fengið svör við því þar frekar en öðru sem ég hef spurt að sem lýtur að flugmálum. Hver var það sem tók

ákvörðun um það og í umboði hvers að engar framkvæmdir voru við Sauðárkróksflugvöll þrátt fyrir að Alþingi hafði samþykkt flugmálaáætlun sem kveður skýrt á um það að ákveðið fjármagn skuli fara til þess flugvallar? Hver er það, hæstv. samgrh., sem tekur fram fyrir hendur Alþingis í þessum efnum? Ég hef ekki fengið svör við því og mér sýnist á hæstv. samgrh. að það verði lítið um svör nú.
    Ég verð að segja það að það er fleira sem mér finnst að hæstv. samgrh. skuldi okkur skýringar á varðandi framkvæmdir við þennan flugvöll. Ef ég hef skilið rétt er í öðru orðinu talað um að það skuli sett slitlag á Sauðárkróksflugvöll á 1.200 metra flugbraut annars vegar og á 1.600 metra flugbraut hins vegar. Nú spyr ég hæstv. samgrh.: Um hvað eru menn að tala? Á að leggja slitlag á Sauðárkróksflugvöll á 1.200 flugbraut eða á að leggja slitlag á Sauðárkróksflugvöll upp á 1.600 metra flugbraut? Við þessu þarf ég að fá svör.
    Ég gæti farið frekar yfir flugmálaáætlun. Hún er út af fyrir sig merkilegt plagg og sýnir ekki mikinn stórhug ríkisstjórnarinnar í þessum þætti samgöngumála. Ég vonast til þess og ég bið hæstv. samgrh., eða formann samgn. sem hér er einnig mættur, að skýra okkur frá því hvernig framhald málsins verður í þinginu með þessa áætlun. Er meiningin að taka hana fyrir í samgn. þingsins og ræða hana þar? Ég hef fengið dagskrá næsta fundar og þessi flugmálaáætlun er ekki á henni. Verður þá orðið við margítrekaðri minni um það að flugmálastjóri eða fulltrúi flugmálastjóra komi á fund nefndarinnar og skýri samgn. frá ýmsum þáttum flugmálaáætlunarinnar, ekki bara fyrir þann flugvöll sem ég hef títt nefnt, Sauðárkróksflugvöll, vegna þess að hann virðist vera sérstakt gæluefni hæstv. samgrh. til þess að skera niður, heldur hljóta fleiri þingmenn og þeir sem eiga sæti í samgn. að spyrjast fyrir um ákveðna verkþætti? En þetta vil ég fá skýrt fram áður en lengra er haldið með þessa umræðu, virðulegi forseti.