Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 20:34:16 (4633)

[20:34]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þessi tillaga hér liggur á borðum um breytingu á flugmálaáætlun fyrir árin 1994--1997 verðskuldar kannski ekki stórkostleg ræðuhöld. Það er fremur dapurlegt tilefni. Hér er á ferðinni niðurskurður á þeirri þáltill. um flugmálaáætlun sem var afgreidd á síðasta ári upp á 40 millj. kr. Þessi niðurskurður stafar ekki af því að tekjustofnar flugmálaáætlunar hafi dugað til að skila fullnægjandi fjármögnun á þeim framkvæmdum sem búið var að samþykkja heldur vegna þess að hæstv. ríkisstjórn ákvað við framlagningu fjárlagafrv. að leggja til að flugmálaáætlun yrði skorin niður um 70 millj., að vísu til að standa straum af rekstrarútgjöldum hjá Flugmálastjórn. Eins og kunnugt er hafa tekjustofnar flugmálaáætlunar frá upphafi eingöngu runnið til að kosta framkvæmdir.
    Það tókst að vísu, hæstv. forseti, að hafa að nokkru leyti vit fyrir mönnum í þessu efni og niðurskurðurinn var lækkaður úr 70 millj. í 40 millj. en eftir stendur það, sem ég vil nota þetta tækifæri til að mótmæla, að hér er lagt inn á þá óheillabraut að taka hluta af þessum mörkuðu tekjum til annarra þarfa en upphaflega var ráð fyrir gert. Þetta er að mínu mati sérlega ósanngjarnt vegna þess að á flugið, sem er á margan hátt sérstök atvinnugrein hér á landi og nánast heimsmet hvernig Íslendingar hafa byggt upp ótrúlega þróað net flugsamgangna innan lands þrátt fyrir fámenni og strjálbýli, leggjast þegar ýmiss konar gjöld og fargjöld innan lands eru eðlilega dýr. Engu að síður létu menn það yfir sig ganga á þessum tíma að ofan á þessi háu fargjöld og þungan rekstur hjá flugrekendum voru lögð gjöld í formi farþegaskatts og bensíngjalds eða gjaldtöku á flugvélaeldsneyti til að fjármagna framkvæmdir í flugmálum. Þá voru að sjálfsögðu heitstrengingar samfara þessari breytingu, að þetta mundi allt saman renna til framkvæmda. En hér er horfið frá því og opnað fyrir það með fjárlagaafgreiðslunni að taka hluta þessara fjármuna til reksturs.
    Þessum niðurskurði vil ég mótmæla, þessari meðferð á hinum mörkuðu tekjustofnum flugmálaáætlunar vil ég mótmæla og í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé óþarflega ónákvæmt orðalag í athugasemd með tillögunni, en þar stendur ef ég má, með leyfi forseta, lesa upp nokkrar línur:
    ,,Í fjárlögum fyrir árið 1995 er gert ráð fyrir að markaðir tekjustofnar flugmálaáætlunar, þ.e. flugvallagjald og eldsneytisgjald, verði notaðir til að fjármagna rekstur flugvalla jafnt sem framkvæmdir við flugvelli.``
    Ég skil það svo að við fjárlagaafgreiðsluna hafi orðið samkomulag um það að þessi heimild sem opnuð var væri afmörkuð og bundin við tiltekna rekstrarþætti hjá Flugmálastjórn. Ég veit ekki betur en um það hafi verið gert samkomulag sem ég kom að og ég hefði talið eðlilegra að það væri með nákvæmara orðalagi gert skýrt hvað þarna var á ferðinni. Það er alveg ljóst að það var ekki gert neitt samkomulag um það hér að um væri að ræða almenna heimild til þess að borga án takmarkana rekstrarútgjöld Flugmálastjórnar með þessum tekjum. Ef menn eru að ganga frá hlutunum með einhverjum tilteknum hætti þá á það auðvitað að vera nákvæmt. Það á ekki að vera villandi orðalag á ferðinni í öðrum þingskjölum sem gætu gefið annað til kynna.
    Ég óska eftir því að hv. nefnd fari yfir þetta og það haft alveg tryggt að um sambærilega niðurstöðu sé að ræða og samkomulag varð um við fjárlagaafgreiðsluna, að það séu eingöngu þessir afmörkuðu rekstrarþættir sem í hlut eiga.
    Síðan gerði hv. þm. Páll Pétursson, 1. þm. Norðurl. v., að umtalsefni --- nei, það mun hafa verið góðvinur hans, hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem var búinn að tala í umræðunni og kemur í sama stað niður út af fyrir sig eða nokkurn veginn hvor þeirra vinanna tekur til máls um flugmálaáætlun. En ég tek undir það sem þar var sagt. Þar var spurt að því hvernig þessir hlutir væru farnir að ganga fyrir sig. Flugmálaáætlun er samþykkt á sl. vori. Hún gerir ráð fyrir tilteknum framkvæmdum. Síðan líður árið án þess að því sé breytt með nýjum ákvörðunum Alþingis og það er komið á næsta ár þegar loksins kemur fram tillaga um að afla heimilda fyrir þessum breytingum og niðurskurði sem hér er áformaður.
    Þarna eru hlutirnir alls ekki að gerast í þeirri röð sem eðlilegt er og það vill svo til að enginn maður hefur talað skörulegar um það en einmitt hv. 2. þm. Norðurl. v. og hv. núv. formaður samgn., Pálmi Jónsson, að samþykktir Alþingis eigi að standa. Ég man eftir miklum ræðuhöldum hans úr þessum ræðustóli þegar til stóð sumarið 1989 að fresta nokkrum framkvæmdum í vegamálum fram yfir áramót, ætli það hafi ekki verið heilar 35 millj. kr. sem þá stóð til að fresta, þar á meðal vegarspotti í kjördæmi hv. þm. og hann ætlaði af göflunum að ganga út af þessu virðingarleysi við Alþingi sem væri búið að samþykkja vegáætlun og vegáætlun skyldi standa þangað til annað væri ákveðið af Alþingi. Þetta er út af fyrir sig prinsippafstaða sem er kórrétt og á full rök fyrir sér enda náðist síðar samkomulag um það að breyta þessari síðar áformuðu frestun og spara þá peninga annars staðar. En mér finnst leggjast lítið fyrir kappann, hv. þm. Pálma Jónsson, að hafa stutt þessa ríkisstjórn allt þetta kjörtímabil og endurtekið staðið að því að hafa að engu samþykktir Alþingis, bæði í vegáætlun og flugmálaáætlun. Mér finnst nú lítið leggjast fyrir þá garpa sem ætluðu af göflunum að ganga, ef svo má að orði komast, með leyfi forseta, hv. þingmenn sumarið 1989 og ekki mikil samkvæmni í þeim málflutningi. Nema það sé þannig að menn hafi hlutina eftir hendinni eftir því hvort þeir eru í meiri hluta eða minni hluta.
    Auðvitað er það líka hárrétt að þessi útreið á flugmálaáætluninni er ekki í samræmi við þá virðingu sem ætti að sýna samþykktum framkvæmdaáætlunum af þessu tagi.
    Að síðustu, hæstv. forseti, er það mjög bagalegt að hér skuli vera gripið til niðurskurðar. Hér er á ferðinni framkvæmdir sem allar eru brýnar og þarfar hvort heldur er að koma í gagnið nýrri flugstöð á Egilsstöðum eða klára framkvæmdir á Sauðárkróki og annars staðar þar sem menn verða fyrir niðurskurðarhnífnum. Það er satt best að segja alveg ömurlegt að menn skuli leggjast svo lágt að fyrir þó ekki meiri fjármuni en 40 millj. séu menn að brjóta upp þetta skipulag og framkvæmdir í flugmálum sem ágæt samstaða hefur verið um með öllum flokkum alveg frá árinu 1987.