Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 20:42:21 (4634)


[20:42]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að láta hjá líða að vekja aðeins athygli á breytingu sem hér er að finna í þskj. um breytingu á þál. um flugmálaáætlun. Það hefur verið tekin sú ákvörðun af hálfu ríkisstjórnarinnar með stuðningi stjórnarflokkanna að taka hluta af mörkuðum tekjustofnum í rekstur flugvalla. Með öðrum orðum hefur verið tekin sú ákvörun að hægja á uppbyggingu flugvalla. Það er grundvallarstefnumörkun af hálfu stjórnarflokkanna sem felst í þessari breytingu, þ.e. að breyta áherslunum frá því sem verið hafði árin á undan í tíð næstu ríkisstjórnar á undan þessari yfir í það sem felst í tillögugreininni hér og í samþykkt Alþingis við afgreiðslu fjárlaga.
    Ríkisstjórnarflokkarnir eru um það sammála að hægja á uppbyggingunni í samgöngumálum úti á landi en færa þess í stað aukið fé í uppbyggingu í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Í stað þess að mæta þörf á uppbyggingu í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu með nýjum tekjum og nýjum fjármunum í er tekið fjármagn af landsbyggðarþætti málanna til þess að fjármagna breytingar. Þetta er stefnubreytingin sem núv. ríkisstjórn hefur lýst með skjölum sínum og gerðum.
    Það eru auðvitað pólitískar áherslur sem felast í þessu og um það er svo sem ekkert að segja annað en það að menn hafa mismunandi pólitískar skoðanir og eru um það ósammála eða sammála eftir atvikum. Ég vil lýsa því fyrir mitt leyti að ég er verulega ósammála stefnumörkun núverandi stjórnarflokka í því að hægja á uppbyggingu í samgöngumálum á landsbyggðinni. Það er hlálegt til þess að vita fyrir núverandi ríkisstjórn, svo mikið sem hún hefur farið í vegáætlun á undanförnum árum með því að fytja til peninga fram og aftur og kalla það framkvæmdaátak og blása í lúðra og telja sig hafa aflað fjár til stórra verkefna, að stærsta verkefnið á sviði samgöngumála í hennar tíð er verkefni sem tekin var ákvörðun um af fyrrv. ríkisstjórn. Núv. ríkisstjórn kemst ekki í hálfkvisti við forvera sína í því að taka djarfar ákvarðanir í samgöngumálum til uppbyggingar á landsbyggðinni. Hins vegar hafa núv. stjórnarflokkar forustu um það að draga úr þessari uppbyggingu. Þó að auðvitað sé þar sumt í tillögum eins og gengur ágætt og samstaða um það þá er heildarstefnumörkunin samt sú að það er hlutskipti þessarar ríkisstjórnar og pólitísk stefna að draga úr framkvæmdum á landsbyggðinni, draga úr uppbyggingunni. Um það verður auðvitað tekist í næstu kosningum hvort þessi stefna ríkisstjórnarflokkanna eigi hljómgrunn á landsbyggðinni eða hvort menn kjósi fremur að fylgja þeirri stefnu sem sá flokkur sem áður fór með samgrn. markaði með verkum sínum.
    Það er mjög athyglisvert í þessari tillögu að niðurskurðurinn, 40 millj. kr., er allur tekinn af landsbyggðinni. Og hæstv. ráðherra mælir hér fyrir því að hluti af honum verði tekinn úr Vestfjarðakjördæmi, af langþráðu verkefni sem menn hafa beðið eftir lengi, árum saman, að leggja bundið slitlag á flugbrautina á Patreksfirði, að því verði teflt í tvísýnu með því að skera niður fjárveitingu úr 40 millj. niður í 35. Mér finnst það vera alveg við hæfi að hæstv. ráðherra útskýri það hér hvernig hann hyggist framfylgja samþykkt Alþingis með flugmálaáætlun hvað þessa framkvæmd varðar eftir að þessi niðurskurður hefur verið ákvarðaður. Ég veit að hæstv. ráðherra er önnum kafinn og ég vil ekki gera mikið af því að ónáða hann, en mér þykir betra að hann heyri spurningarnar sem ég ber fram fyrir hann því þá hef ég nokkra vissu fyrir því að hann muni a.m.k. reyna að svara þeim, því að ég reyni hann ekki að öðru en því að svara spurningum sem fyrir hann eru lagðar og er hann að því leytinu ólíkur sumum félögum sínum í ríkisstjórninni sem iðka það að svara ekki fyrirspurnum sem fyrir þá eru lagðar. Hitt er svo annað mál að ekki er maður alltaf sammála ráðherranum eða ánægður með svörin, en það er önnur saga.
    Ég spyr hæstv. ráðherra og ítreka spuringu mína: Hvernig hyggst hann framkvæma þann vilja Alþingis sem felst í flugmálaáætlun sem samþykkt var á síðasta þingi, að bundið slitlag verði lagt á flugbrautina á Patreksfirði á þessu ári, þegar skorin hefur verið niður fjárveitingin úr 40 millj. í 35? Við verðum að hafa það í huga að fjárveitingin er miðuð við hvað menn áætla að hún muni kosta og það er ekki mikil von til

þess að hinir reyndu sérfræðingar Flugmálastjórnar séu að jafnaði með of háar áætlanir í sínum tölum. Og ef hæstv. ráðherra ætlar að svara því til að talan sé of há og menn kunni að geta framkvæmt verkið fyrir minna fé en áætlað er þá hlýt ég að spyrja hann að því, á það þá ekki við um allar aðrar framkvæmdir í flugmálaáætlun? Eru það bara tilteknar framkvæmdir í flugmálaáætlun á landsbyggðinni sem væri þá ofáætlaður kostnaður við en ekki annars staðar? Þannig að það er augljóst mál hverjum sem það hugsar að það svar mun engan veginn duga til að útskýra hvernig eigi að framkvæma flugmálaáætlun eftir þessa tillögu sem hæstv. ráðherra leggur fyrir Alþingi. Ég ráðlegg honum því að grípa ekki til þess svars að hluturinn og kostnaðurinn við verkið sé ofáætlaður í flugmálaáætlun því ég hef enga trú á því að svo sé og sé ekki rök sem hægt er að nota til að rökstyðja þá skoðun.