Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 21:16:01 (4644)


[21:16]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég skil þetta mál svo að hæstv. ráðherra sé að óska eftir heimild til að gera breytingar á þeim samningi sem í gildi er um þessa framkvæmd við fyrirtækið Spöl hf. en tillagan er eiginlega orðuð eins og um væri að ræða frumheimild til að gera samning. Svo kemur fram í athugasemdum að nauðsynlegt sé að gera nokkrar breytingar á þeim samningi sem fyrir liggi þannig að það er kannski ekki fullt samræmi í þessu. Þetta er praktísk athugasemd og skiptir ekki máli að öðru leyti en því að það er auðvitað eðlilegt að menn hafi það á hreinu hvort til stendur að henda þeim samningi sem í gildi er og gera alveg nýjan frá grunni og þá e.t.v. í grundvallaratriðum frábrugðinn eða hvort hér er um að ræða einfalda breytingu hvað varðar tiltekna þætti eins og rekstrartíma ganganna og þetta virðisaukaskattsmál eins og nær er að ætla þegar greinargerðin er lesin.
    Að öðru leyti ætlaði ég að spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í það hvað sé að frétta af þessu máli, þ.e. hvað varðar annars vegar fjármögnunina, bæði hjá innlendum og erlendum aðilum, og hins vegar deilur sem eru um vegarstæði að göngunum eða að og frá göngunum. Varðandi fjármögnunarþáttinn hef ég

skilið það svo að það hafi reynst krafa af hálfu hinna erlendu fjármögnunaraðila að umtalsverður þáttur fjármögnunarinnar væri innlendur. Fyrir því eru væntanlega þær ástæður að hinir erlendu fjárfestar telja sig betur tryggða með því að innlendir aðilar leggi í verkið og eigi þá mikið í húfi að það gangi og auðvitað læðist að manni sá grunur að með þessu séu menn að koma svona óformlegri og hálfgildings opinberri ábyrgð á bak við verkið með því að innlendir öflugir aðilar setji í það mikla fjármuni sem menn mundu svo veigra sig við að láta lenda í uppnámi ef á bjátaði.
    Af þessu hef ég ekki haft neinar nákvæmar fréttir og mér finnst eðlilegt að Alþingi sé gerð grein fyrir því hvernig þetta standi þegar málið er tekið fyrir, sérstaklega vegna þess að frá byrjun var sú hugsun lögð til grundvallar að þetta verk væri sjálfstætt verkefni sem stæði sjálfstætt og óháð öðrum og engar ábyrgðir ríkis og sveitarfélaga eða annarra slíkra aðila kæmu til heldur gæti það staðist sem sjálfstæður fjárfestingarkostur og væri það álitlegt af hálfu fjármögnunaraðila að þeir tækju áhættuna í von um þann ábata sem af því mætti hafa. Ég vil taka það fram að ég hef verið stuðningsmaður þessa verks sem slíks og átti minn þátt í því á sínum tíma að það komst á rekspöl með því að hér voru sett lög á árinu 1990 og síðan undirritaður samningur við fyrirtækið Spöl á öndverðu ári eða í upphafi árs 1991.
    Varðandi erlendu fjármögnunina vekur það athygli að þeir aðilar sem upphaflega var verið í viðræðum við, og það engir aukvisar á þessu sviði, eins og japanski bankinn Nomura Bank, sem hér er talinn, en Nomura fjárfestingahringurinn er eins og kunnugt er einn af þeim stærstu og öflugustu í heiminum, líklega annar stærsti í Japan, og hefur vaxið með ævintýralegum hraða og þykja mikil undur og eru skrifaðar um það fræðibækur hversu klókir þeir Nomura-menn hafa verið í að koma ár sinni fyrir borð, en þeir hafa af einhverjum ástæðum dregið sig út úr fjármögnun þessa verkefnis. Sama á við um Union Bank of Switzerland sem er líka dottinn út úr myndinni og nú er það bandaríska tryggingarfélagið eða fjármögnunarfélagið Prudential sem aðallega er treyst á. Vonandi gengur það eftir sem hér er verið að spá að það taki að sér fjármögnunina.
    Varðandi hinn þáttinn, þ.e. vegarstæðið, hefði líka verið fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig þau mál standa. Okkur þingmönnum hafa borist mótmæli frá landeigendum sem telja sig ekki hafa gert nokkurt samkomulag um vegarstæðið og mótmæla því að landið verði tekið eignarnámi. Það er auðvitað slæmt að ekki skuli nást samkomulag um þann þátt málsins og mjög miður og ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann telji einhverjar líkur á því að slíkt samkomulag geti tekist eða hvort öll sund séu lokuð og ekkert annað eftir en eignarnám.