Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 21:39:37 (4650)


[21:39]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég var að lýsa því að samkvæmt mínum hugmyndum á að koma verulega til móts við Vestlendinga. Það er gert ráð fyrir því í mínum hugmyndum að farið verði með alla þessa vegaframkvæmd sem framlag til jarðganga þannig að af stórverkefnafé greiðist 80% en 20% af fjármunum kjördæmisins. Ég hygg að hv. þm. sé mjög ánægður með þá skiptingu þegar hann íhugar málið, það er ekki völ á öðru betra. En það má auðvitað taka það til athugunar hvort hv. þm. telur æskilegra að kjördæmið standi t.d. undir þeim speli sem liggur frá göngunum til Akraness og síðan geti aðrir séð um tenginguna yfir á hringveginn ef hv. þm. telur að það komi betur út fyrir kjördæmið.
    Auðvitað nýtist þessi vegagerð og þessi göng öðrum en Vestlendingum. Auðvitað nýtist hún Reykvíkingum, auðvitað nýtist hún Norðlendingum og Vestfirðingum. En kannski mest og best þeim sem næst göngunum búa á báðar síður. En eftir sem áður, þar sem hér er um mjög verulegar fjárhæðir að ræða þá er

gert ráð fyrir þessari skiptingu. Ég vil minna hv. þm. á að ef ekki kæmi til þessara jarðganga þá yrði óhjákvæmilega að leggja í aðrar framkvæmdir í Hvalfirði til þess að mæta þeirri auknu umferð sem nú er og þar fram eftir götunum. Ríkisstjórnin kemur mjög til móts við Vestlendinga að þessu leyti og tekur miklu meiri þátt í veglagningu að göngunum en í öðrum stórverkefnum sem ég get nefnt, t.d. Ólafsfjarðarmúla.