Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 21:41:47 (4651)


[21:41]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég var ekki að kvarta yfir því að ríkisstjórnin hefði í huga að hafa þetta 20% og 80% skiptingu. Ég var einungis að benda á að það mætti skoða það að fjármagna vegtengingarnar með lánsfé þannig að ekki þyrfti að raska þeim áætlunum sem menn eru búnir að gera núna ef þessi ákvörðun yrði tekin á næstu vikum jafnvel þannig að þessi fjármögnun kæmi inn á næstu ár. Það væri mjög óheppilegt ofan á þá röskun sem hefur orðið á öðrum verkefnum á Vesturlandi ef þessir fjármunir kæmu líka niður á næstu tveim, þrem árum.
    Ég held að það sé hægt að segja það að ef ekki verður af þessum göngum liggja náttúrlega fyrir áætlanir um það hvað það kostar að gera upp veginn fyrir Hvalfjörð. Það er nú þannig að langstærsti hlutinn af þeim framkvæmdum liggur við sunnanverðan fjörðinn þannig að það kæmi kannski ekkert endilega niður meira á Vestlendingum en þeim sem búa hérna megin. Það er ekkert aðalatriði málsins, aðalatriði málsins er að þessi framkvæmd verði tryggð og líka að ekki verði farið að raska þeim framkvæmdum sem menn hafa haft samstöðu um að fara í á næstu árum.