Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 21:43:21 (4652)


[21:43]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þetta mál sem tengist undirbúningi jarðganga undir vegtenginu um utanverðan Hvalfjörð, þ.e. jarðgöngum undir fjörðinn, á upptök sín í lögum nr. 45 sem sett voru 1990 sem heimiluðu að ríkið gengi til samninga við fyrirtæki sem stofnað yrði til að hafa forgöngu um framkvæmdina og annast reksturinn. Þetta fyrirtæki, Spölur hf., hefur síðan haft undirbúning með höndum á grundvelli samnings sem gerður var á öndverðu ári 1991 en hér er verið að leggja til öðru sinni að breytt verði. Það var 20. apríl í fyrravor að breyttur samningur var staðfestur af Alþingi með þáltill. Auk þess var, eins og fram kemur í grg. með þáltill., samþykkt að veita 50 millj. kr. lán úr ríkissjóði til Spalar hf. til að fjármagna jarðlagarannsóknir sem lagt var til af ráðgjöfum fyrirtækisins að yrðu gerðar.
    Það hefur frá upphafi verið grundvallarforsenda í þessu máli og forsenda fyrir því þegar það var upphaflega lagt fram að hér yrði um sjálfstætt fyrirtæki að ræða og unnt væri að ráðast í verkið á grundvelli sérstakrar fjármögnunar án þátttöku eða ábyrgðar ríkisins og þar með utan vegáætlunar. Ég tek þetta fram, virðulegur forseti, ekki vegna þess að það komi neitt annað beint fram í þessari tillögu sem liggur hér fyrir heldur einfaldlega að rifja það upp að þetta er grunnur málsins, að þarna reyni ekki á fjármögnun af hálfu ríkisins.
    Það kemur svo hér fram inn í þessa umræðu að hluta af verkinu, þ.e. tengivegi, sé ráðgert að fjármagna, ekki af þessu fyrirtæki heldur sér á parti og þá á grundvelli stórverkefna, ef ég hef skilið það rétt, samkvæmt vegáætlun. Ég er ekki viss um að það hafi fylgt málinu frá upphafi, án þess að ég hafi sett mig inn í það efni og er auðvitað álitaefni sem tengist uppsetningu svona framkvæmda, hvað heyrir þar til. Þetta er hins vegar á margan hátt spennandi verkefni sem þarna er um að ræða eins og margt sem lýtur að jarðgangagerð í landinu og sérstaklega vegna þess að þá eru menn að gera ráð fyrir því að það sem menn greiða fyrir að keyra þessi væntanlegu göng, að þar spari menn ekki ólíka upphæð og færi í bensínkostnað með því að keyra inn fyrir fjörðinn. Það eru sem sagt þannig viðskiptalegar forsendur ef þetta gengur eftir með þeim hætti og greitt af þeim sem um veginn fara og við skulum vona að þetta gangi eftir og það verði hér ekkert annað uppi á borði. Ég lagði fram fsp. á þskj. 626 til hæstv. samgrh. fyrir skömmu síðan og ekki fengið enn þá svar við henni, en það eru nú nokkrir dagar eftir af þingi, þar sem spurt er um ýmsa þætti þessa máls. Ástæðan fyrir því er að fá skýrar fram en verið hefur viðbrögð og ég ætla ekki hér að fara að ganga eftir svari hæstv. ráðherra. Það er óskað eftir skriflegu svari og engin ástæða til þess að vera að hraða því ef því má treysta að skriflegt svar berist á næstu dögum við fsp. sem beðið er um skriflegt svar við.
    Það væri síðan mál út af fyrir sig að ræða um afstöðu hæstv. núv. samgrh. til jarðgangagerðar í landinu og þá alveg sérstaklega á Austurlandi. En þar hefur nú annað kveðið við heldur en að fylgja fram þeirri stefnumörkun sem lögð var fyrir í drögum að langtímaáætlun á sínum tíma og gert var ráð fyrir að hefja verk ekki síðar en 1998 við jarðgöng á Austurlandi. En hugur hæstv. núv. samgrh. hefur staðið til annars heldur en að tryggja undirbúning þeirra mála og hefur ráðherrann þá helst vísað til þess að Austfirðingar væru ekki á einu máli um hvar ætti að byrja. Það er bara fyrirsláttur af hálfu hæstv. ráðherra og hans hugur hefur gengið í þá átt að byggja upp frambúðarsamgöngur milli Norður- og Austurlands yfir Fjöllin, eins og við köllum það, og ekki viljað ljá máls á því að skoðað verði að byggja upp vetrarleiðina

strandveg þannig að það nýttist byggðunum á Norðausturlandi, og sér ekki nema tvo punkta á þessari leið. Ég held að það séu Egilsstaðir og Akureyri. Það er að vísu farið um hlaðið á Skjöldólfsstöðum og nokkrum fleiri bæjum. Það er ágætt að leggja veg yfir Fjöllin en það er nú mál sem þyrfti að athuga svolítið betur en gert hefur verið, hvaða forgangsröð eigi að vera í því efni. Þessu máli tengist jarðgangagerð m.a. milli Héraðs og Vopnafjarðar, sem er auðvitað eitt af því sem til álita er varðandi jarðgangagerð á Austurlandi og mundi þá þjóna samgöngum milli landshlutanna þar sem ekki væri farið um langan veg í 600 km hæð á fjöllum uppi heldur þræddar byggðir sem nýttist þá, fyrir utan þann sparnað sem því tengist að halda opinni einni leið að vetrarlagi í staðinn fyrir tveimur eins og þessi núverandi stefna hæstv. samgrh. gerir ráð fyrir.
    Ég leyfði mér nú, virðulegur forseti, þó þetta sé aðeins krókur frá tillögunni sem hér er rædd, smálykkja sem ég hef lagt á leið mína í tengslum við þetta, en ég leyfði mér að tengja það þessu máli. Það verður fylgst grannt með því hvernig útfærslan verður, hvaða svör hæstv. ráðherra gefur í sambandi við þá fsp. sem fyrir liggur. Það verður kannski ekki á valdi og vonandi ekki á valdi núv. hæstv. ráðherra, þó að honum sé ekki allt illa að lagi, ég er langt frá því að segja það, hann hefur gert ýmsa góða hluti og gagnlega í sínu starfi. En vonandi verður það vegna almannahagsmuna ekki hæstv. núv. samgrh. sem kemur til með að standa fyrir ákvörðunum í sambandi við Hvalfjarðargöng ef aðrar ákvarðanir þarf að taka heldur en heimildir nú þegar bjóða.
    Ég skal ekki orðlengja þetta, virðulegur forseti, og gef þá hér eftir nokkuð af þeim tíma sem ég hef í umræðunni.