Vegalög

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 21:54:07 (4655)

[21:54]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Herra forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. til laga um breytingu á vegalögum nr. 45/1991. Á fund nefndarinnar komu Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri, Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóri og Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs Vegagerðarinnar, en hann er einn af höfundum frv. og naut nefndin aðstoðar hans fremur en annarra við það að kynna sér málið ofan í kjölinn.
    Samgn. hefur fjallað nokkuð ítarlega um þetta mál. Frv. á rætur í óskum sem fram hafa komið frá bændum á undanförnum árum um það að Vegagerð ríkisins verði gert skylt að taka þátt í eða að greiða kostnað við viðhald girðinga í tilteknum vegflokkum. Þetta mál var mjög rætt í samgn. á síðasta Alþingi þegar fjallað var um breytingu á vegalögum, en þá voru sett ný vegalög. Þá kom upp sú hugmynd sem frv. byggir í raun á, að það verði tekin upp sú regla að Vegagerð ríkisins kosti að hluta viðhald á því sem nú heita stofnvegir og tengivegir og að hluta til komi sveitarfélögin að þessu máli og frv. byggir á þessari hugsun.
    Að samningu frv. komu fulltrúar frá samgrn., frá landbrn., frá Vegagerðinni frá Stéttarsambandi bænda og frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Þessir aðilar allir náðu samkomulagi um frv. eins og það var lagt fram og unnu gott starf á tiltölulega skömmum tíma.
    Bændasamtökin höfðu sent samgn. umsögn um þetta mál og var þar meginósk þeirra að veghaldari, þ.e. Vegagerðin skyldi sjá um girðingar með stofn- og tengivegum og halda þeim girðingum við á sinn kostnað. Síðan komu fram varatillögur þannig að Vegagerðin skyldi halda við girðingum á eigin kostnað þar sem girðingar væru einvörðungu til þess að fría vegsvæði fyrir búfé, eins og það var kallað. Það verður að segjast eins og það liggur fyrir að sú skilgreining var tiltölulega óljós. En í frv. er gert ráð fyrir því að Vegagerðin standi að öllum kostnaði við viðhald girðinga þar sem girt er til þess að fría vegsvæði fyrir búfé á afréttarlöndum. Í þriðja lagi var á það bent af hálfu bændasamtakanna að nauðsynlegt væri að skilgreina betur hugtakið lokað vegsvæði, þ.e. með ristarhliðum í báða enda en girt síðan beggja megin vegar, að þar væri Vegagerðinni gert skylt að annast viðhaldið að fullu.
    Það er skoðun nefndarinnar í heild að frv. það sem hér liggur fyrir sé mjög þýðingarmikið. Með því sé stigið skref sem verði til þess að ganga inn á nýja braut, þá braut að Vegagerðin taki að sér viðhaldskostnað að hálfu á girðingum sem eru meðfram stofnvegum og tengivegum, og er það að okkar dómi afar þýðingarmikið mál að fá þetta viðurkennt. Við treystum okkur ekki til þess að ganga lengra og erfitt að skilgreina hvernig því skyldi skipt ef farið væri að óskum bændasamtakanna varðandi þetta mál, t.d. eins og segir í varatillögu þeirra samtaka og væri þá stutt í það að leggja þann kostnað allan á Vegagerðina að annast viðhald girðinga með þessum vegum.
    Hv. þm. samgn. voru sammála um að eðlilegt væri að afgreiða þetta mál nú eins og það liggur fyrir og við leggjum til að það verði samþykkt óbreytt. Rétt er að taka það fram að við 1. umr. um þetta mál og eins í nefndinni hafa farið fram miklar umræður um þann þátt þessara mála sem snertir lausagöngu búfjár og bann við lausagöngu búfjár á þessum vegum þegar óhöpp verða eða keyrt er á skepnur þar sem lausaganga er bönnuð hver sé þá ábyrgð bónda og hvort ekki sé stórkostleg hætta á því að hann geti orðið fyrir stórfelldum skakkaföllum. Þessi umræða hefur svo blandast því að eins og nú standa sakir í miklum snjóavetri og hörðum þá eru víðast hvar girðingar allar undir fönn og erfitt um vik fyrir bændur að verjast því að skepnur fari inn á vegsvæði þar sem lausaganga búfjár er bönnuð.
    Af þessu tilefni var leitast við að kanna í fyrsta lagi þá dómsúrskurði sem fallið höfðu nýlega og þeir voru kannaðir nokkrir. Einn hæstaréttardómur féll þann 16. feb. á 75 ára afmæli Hæstaréttar. Þar var dæmt í máli þar sem stóðhestur hafði komist út úr girðingu um opið hlið og undirréttur hafði dæmt bónda skaðabótaskyldan vegna vanrækslu í gæslu á hestinum. Skemmst er af því að segja að Hæstiréttur sýknaði bónda í þessu máli og lagði alla sök á ökumann og tryggingafélag ökumannsins vegna þess að ekki væri unnt að sanna að um vanrækslu hefði verið að ræða af hálfu bónda þótt svo að hliðið hafi verið opið og sannaðist hvergi hlutdeild bóndans í þeirri slysni.
    Þessi dómur hlýtur að vera nokkurt innlegg í það hvernig dómar kunna að falla á komandi árum. Þó er þess auðvitað að geta að þar var um að ræða bann við lausagöngu grips vegna ákvæða í búfjárræktarlögum en ekki vegna þess endilega að lausaganga væri bönnuð á vegsvæði. Fleiri dómar hafa fallið að undanförnu og eru þeir á ýmsan veg en ekki lá fyrir úrskurður Hæstaréttar, sem nefndin kynnti sér, nema í þessu eina tilviki.
    Nefndin kynnti sér nokkuð hvernig háttaði tryggingum varðandi slík mál. Það liggur fyrir að tryggingaflokkur sem er nokkuð algengur hjá bændum, svokölluð ábyrgðartrygging, tekur til tjóns á gripum og tjóns sem gripir kunna að valda á farartækjum, ef talið er að það sé vegna vanrækslu bónda eða hægt sé að kenna honum um. Þessi tryggingaflokkur er algengur í sveitum, eins og ég sagði, og eftir að hafa kannað það lauslega hjá tryggingafélögunum þá kom í ljós að ársiðgjald af slíkri tryggingu kostaði frá 6.500--11.000 kr. og er þess vegna tiltölulega eða a.m.k. mjög viðráðanleg sú trygging og í rauninni sjálfsagt fyrir ýmsa bændur að kaupa sér slíka tryggingu til þess að verjast hugsanlegum áföllum af þessum toga.
    Nefndin sá því ekki ástæðu til að gera neinar breytingar á 56. gr. vegalaga svo sem beint var til hennar við 1. umræðu að taka til umhugsunar. En á það er rétt að benda að lögin eru tiltölulega ný, 56. gr. vegalaganna tók gildi 1. jan. sl. og á hana hefur ekki mikið reynt. Ég tel eðlilegt að það reyni betur á lögin heldur en gert hefur til þessa. Við samgöngunefndarmenn tökum svo fram hér t.d. í nál. að þar sem svo vill til að óviðráðanlegar ástæður valda því að búfé fer út á veg, eins og þegar girðingar eru á kafi í snjó eða einhverjar aðrar orsakir liggja til að bónda er það óviðráðanlegt að búfé komist á vegsvæði þar sem lausaganga er bönnuð, þá hljóti að verða að taka tillit til slíks í úrskurði mála sem af slíku spretta.
    Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara um þetta fleiri orðum. Frumvarpið er, eins og ég gat um áður, mikilvægt að dómi okkar nefndarmanna í samgn. Nefndin leggur einróma til að það verði samþykkt óbreytt, en hv. þm. Egill Jónsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir voru fjarstaddir afgreiðslu málsins.