Vegalög

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 22:06:52 (4656)


[22:06]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Þetta mál horfir til stórbóta á því ástandi sem er víða um vegi landsins og í strjálbýlinu vegna lausagöngu búfjár eða a.m.k. mæli ég með samþykkt frv. í trausti þess. Það þarf að gera mjög mikið átak til þess að koma í veg fyrir þau slys sem sífellt verða á vegunum og reyndar eru það ekki bara slys á skepnum heldur fólki líka og tjón á eignum. Þarna er verið að gera tilraun til þess að taka á þessum málum bæði með því að meira verði gert af því að girða með vegunum og líka að það verði betur fyrir komið viðhaldi á girðingum og þannig að sveitarfélögin komi þar að líka. Ég held að þetta horfi nú allt saman til bóta. Að vísu eru hlutir þarna sem menn vita ekki hvernig muni reynast, eins og hv. frsm. nefndarinnar var hér að lýsa og ætla ég ekki að fara yfir það sérstaklega, en hvernig ábyrgð bænda eða annarra eigenda búfjár muni verða á auðvitað eftir að koma betur í ljós með fleiri dómum. Það er auðvitað ekki hægt að fullyrða hvernig þetta muni þróast og ýmsir bændur hafa nú kannski áhyggjur af því að þarna verði á ferðinni bótakröfur á þá og aðra fjár- eða skepnueigendur, en nefndin treystir sér ekki til þess að leggja til að koma þessu öðruvísi fyrir.
    Það er einn þáttur í þessu máli sem ég ætlaði hér að nefna, sem ég nefndi á fundum nefndarinnar, sem mér finnst umhugsunarefni hvort að hefði ekki þurft að taka á, en það er að það kemur hvergi fram í þessum lögum hver er eigandi þessara girðinga sem verið er að reisa. Það er einungis talað um að veghaldari girði og beri kostnað af því. Ég hef pínulitlar áhyggjur af því að það geti komið til þess einhvern tíma að menn lendi í því að það verði slys á einhverjum skepnum eða fólki vegna þessara mannvirkja sem girðingarnar eru og það þurfi þá að vera á hreinu hver eigi girðinguna. Þetta tel ég að sé til umhugsunar. Ég nefndi þetta á fundum nefndarinnar en það varð ekki nein niðurstaða í því að gera neitt í því máli.
    Sú lagabreyting sem hér er verið að leggja til að verði samþykkt á hv. Alþingi á auðvitað rætur sínar í umræðunum um vegalögin í fyrra og það var vegna þeirrar umræðu sem þá fór fram um akkúrat þessi girðingamál sem farið var af stað í þessa göngu sem nú er komin í þennan áfanga, að málið hefur verið lagt hér fyrir þingið til 2. umr. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta frv. Ég er á þeirri skoðun að þetta sé til bóta sem hér er verið að leggja til, en það þarf auðvitað fleira til að koma heldur en bara þessi lagasetning. Það þarf að fylgja þessu eftir með átaki í girðingamálum og þar held ég að sveitarfélögin þurfi að koma til í samvinnu við Vegagerðina og ríkið, þar sem menn þurfa þá að taka á málum heildstætt eftir landsvæðum. Það er ekkert endilega víst að niðurstaðan sé sú að girða langar girðingar, það getur líka verið að niðurstaðan sé sú að friða stór svæði og lönd. Það er víða þannig að búfé hefur fækkað mjög mikið og þörfin fyrir beitarland hefur víða minnkað mjög mikið. Þannig að það er hægt, án þess að beitarlandi verði ofgert, að friða mjög stór svæði, sem þýðir þá aftur á móti að bæði er hægt að minnka hættu af búfé og einnig að spara sér girðingar sem er auðvitað líka í sjálfu sér bæði sparnaður þá í viðhaldi og stofnkostnaði girðinga. Það er svo sem ekkert endilega neitt markmið að girðingar séu sem lengstar. Best væri að þær væru sem allra stystar og þær eru ekki til prýði yfirleitt í landslaginu.
    Þannig að af öllum ástæðum held ég að það væri mikið til bóta ef menn réðust í það að reyna að setja af stað einhverja framkvæmdaáætlun þar sem sveitarfélögin kæmu myndarlega inn í þetta ásamt hinu opinbera og Vegagerðin hefði forgöngu fyrir þess hönd og menn tækju virkilega á í þessu efni. Umferðin á vegunum er orðin mjög hröð og hætturnar og slysin sem við höfum séð á undanförnum árum hafa verið mjög hörmuleg sum. Það er af þeim ástæðum sem þessi mál eru nú hér í umræðu og til afgreiðslu, að það eru auðvitað kröfur uppi um að það verði tekið á þessum málum.
    Ég ætla að hafa þetta mín lokaorð, hæstv. forseti.