Vatnsveitur sveitarfélaga

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 23:33:43 (4670)


[23:33]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst frekar slæmt að hlusta á að þingmaðurinn skuli vera svo ofboðslega neikvæður. Þingmaðurinn gefur sér að eiginlega séu allir annaðhvort að brjóta á umbjóðendum sínum, í þessu tilfelli sveitarfélögin, eða bregðast sínum kjósendum og ég tala ekki um ráðuneytin að svíkjast um að fylgjast með og leggur áherslu á ársreikninga sveitarfélaga. Sveitarfélögin í landinu sem senda ráðuneyti félagsmála ársreikninga sína eru ekki fá og ég er hrædd um og þykist nokkuð viss um að þingmaðurinn viti fullvel að ef ráðuneyti af þessari stærð ætti að vera ofan í hverjum ársreikningi, í hverju verkefni á þann hátt sem hann leggur til, þá mundi þurfa talsvert aukið mannahald í slíku ráðuneyti.
    Þær staðhæfingar sem sífellt koma um að það sé verið að taka meira en útgjöld krefjast er vissulega erfiðara að fjalla um vegna þess að þegar ég hef spurst fyrir um þessi mál þá kemur fram að oft liggi fyrir útlagður meiri kostnaður á ákveðnu tímabili en verið er að taka inn síðar í gjöldum, svo sem eins og hér.
    Varðandi það hvort sveitarfélögum sé óheimilt og þau séu að brjóta af sér við álagningu gjalda hjá vatnsveitunum ætla ég ekki að hafa frekari orðastað við þingmanninn um. Hins vegar ef mér gefast einhverjir mánuðir í ráðuneyti, og ég hef fullan hug á því að það verði ekki bara mánuðir heldur jafnvel einhver fleiri ár, þá mundi ég leggja mikla áherslu á að hafa það skýrt og skorinort í lögunum hvaða eftirlit ráðuneyti á að hafa, í hverju frumkvæðisskylda á að felast og í hverju öðru almennt eftirlit og ábendingar og í hvaða tilfellum eftirlit felist í að samræmingar sé gætt og að tryggt sé að ákveðin verkefni séu innt af hendi. Þetta mundi ég leggja áherslu á ef mér gefst tími í þessu ágæta ráðuneyti.
    Varðandi það hvort tekjustofnar sveitarfélaga séu réttmætir, orðnir úreltir eða annað þá eru nefndir að störfum. Það er nefnd að vinna við álagningu á skrifstofu- og verslunarhúsnæði en það er skattur sem var óbreyttur lagður til sveitarfélaganna fyrir tveimur árum ef ég man rétt og fyrirhugað að breyta honum eftir fyrsta árið þegar hann væri lagður á óbreyttur og hlýtur þá að skoðast af þeirri nefnd almennt hvernig farið sé með fasteignaskatt. Það eru ágætir sveitarstjórnarmenn af landsbyggðinni í þessari nefnd. Það er verið að skoða aðra tekjustofna sveitarfélaga m.a. í tengslum við að verkefni verði flutt eins og grunnskólinn. Ég er sannfærð um að þessir hlutir verði skoðaðir mjög vel og það er mikilvægt. Ákveðnir hlutir eiga sífellt að vera í endurskoðun og ég held að það hljóti að verða mín lokaorð í þessu.