Vatnsveitur sveitarfélaga

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 23:37:21 (4671)


[23:37]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra taldi að það þyrfti að auka mannafla í ráðuneytinu ef það ætti að yfirfara ársreikninga. Í svari því sem ég gat um fyrr í kvöld við fyrirspurn frá 28. nóv. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Félagsmálaráðuneyti berast ársreikningar frá sveitarfélögunum, eins og hér hefur komið fram, og ráðuneytið yfirfer ársreikningana og gerir athugasemdir ef ástæða þykir til.`` Ráðherra hefur þannig skotið sjálfan sig í fótinn með sínum athugasemdum hér áðan.
    Þá minni ég á nál. félmn. frá 1991. Þáverandi formaður nefndarinnar heitir Rannveig Guðmundsdóttir og er núna félmrh. ( Umhvrh.: Þú átt ekki að vera að minna á svona hluti.) Í nál. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Við 7. gr. er gerð tillaga um orðalagsbreytingu til að taka af öll tvímæli um að upphæð vatnsgjalds skuli miðast við að standa straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitna og því sé gjaldtaka umfram þann kostnað óheimil.``
    Þetta las þáv. hv. frsm. nefndarinnar, Rannveig Guðmundsdóttir, upp í þingsölum í desember 1991. Ég minni á að nú er viðkomandi þingmaður hæstv. ráðherra og mætti gjarnan muna eftir þessu.
    Þessar tvær tilvitnanir í orð hennar sjálfrar held ég að dugi til þess að mönnum sé það ljóst að hnífilyrði ráðherrans í minn garð um neikvæðni eiga sér enga stoð í veruleikanum og eru einfaldlega ergelsi ráðherrans yfir því að hann er staðinn að því að standa sig ekki í hagsmunagæslu sinni fyrir íbúa í sveitarfélögunum eins og boðið er samkvæmt lögum.