Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 00:06:38 (4677)


[00:06]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér skilst á hæstv. umhvrh. að mig hafi skort auðmýkt og þakklæti í ræðustólnum fyrir málafylgju hæstv. ráðherra og ég hefði átt að vera hér bljúgur og jafnvel svona hálfpartinn á hnjánum af þakklæti við hæstv. ráðherra að ætlar af mikilli miskunnsemi sinni að leggja þetta til. Nú er það að vísu

svo að hæstv. ráðherra mun ekki greiða þetta úr eigin vasa og mér er stórlega til efs að hæstv. núv. ríkisstjórn komi til með að fylgja þessu máli mikið eftir, þannig að ég veit ekki hverjum það svo kemur þegar þar að kemur að standa fyrir framkvæmdum á þessu.
    Það er líka rétt að það er sjálfsagt ekkert um það að ræða að þetta verði afturvirkt og taki þar með ekki til þeirra sveitarfélaga sem vissulega voru komin vel af stað í þessum málum mörg hver og hafa mörg ráðist í miklar framkvæmdir. Það þekkja menn hér í Reykjavík þar sem eru miklar framkvæmdir við að koma frá skolpinu hér út með byggðinni beggja megin strandlengjunnar og hreinsistöðvar og dælustöðvar og allt það. Sömuleiðis hefur hæstv. ráðherra verið svo vinsamlegur að nefna Akureyri, höfuðstöðvar míns kjördæmis, og það er alveg hárrétt. Akureyringar hafa líka verið að undirbúa stórátak í þessum efnum og hefja þar framkvæmdir. Ég gæti nefnt fleiri staði eins og Húsavík þar sem menn hafa komið öllu frárennsli eða eru að koma öllu frárennsli út úr höfninni og búa sig í átök af því taki.
    En það breytir ekki hinu, hæstv. ráðherra, að við erum að tala hér um gífurlegt verkefni sem eftir er í þessu og við erum í öðru lagi að tala um sveitarfélög sem þegar búa við ört versnandi fjárhagsstöðu eða hafa að minnsta kosti gert það á þessu kjörtímabili, þannig að ég hef áhyggjur af því hvernig þeim reiði af í þessum gríðarlegu verkefnum. Og það stendur óhaggað í þessu að í reynd mun ríkið hafa þetta verkefni að féþúfu upp á 1--2 milljarða kr. í virðisaukaskatti, þó að svo færi að allir þessir tveir milljarðar yrðu endurgreiddir, sem ekki er sjálfgefið og engin stefna virðist hafa verið mótuð um. Hæstv. ráðherra þegir um það þunnu hljóði hvaða stefna liggi að baki hæstv. ríkisstjórnar. (Forseti hringir.)
    Hæstv. forseti, ég er alveg að klára. Ég vil bara skora á hæstv. fjmrh. að koma og lýsa því hér yfir að hann ætli að leggja í þetta 200 millj. á ári ef hann fái um það nokkru ráðið.