Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 00:16:07 (4679)


[00:16]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er tóm vitleysa hjá síðasta hv. ræðumanni að þessi ríkisstjórn hafi ekki staðið við það sem hún hefur sagt í fráveitumálum. Hann heldur því fram að hann geti fundið einhverjar dagsetningar þar sem fram hafi farið umræður um hið gagnstæða. Hann getur engar slíkar dagsetningar fundið vegna þess að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem getin var í frægri Viðeyjarferð, Viðeyjardvöl ákveðinna bræðra sem við skulum ekkert vera að ræða fekar í kvöld, var lagður grunnurinn að stefnunni. Þar var sagt tvennt:
    Í fyrsta lagi að það yrði gerð úttekt á fráveitumálum í öllum sveitarfélögum. Það hefur verið gert. Það lá fyrir einhvern tíma á haustdögum 1993. Síðan var sagt: Ríkisstjórnin mun stuðla að því að framkvæmdir hefjist í fráveitumálum sveitarfélaga árið 1995. Umhvrh. túlkaði þessa yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þannig að það væri þörf á beinum fjárframlögum. Ég lýsti því á fjölmörgum aðalfundum landshlutasamtaka sveitarfélaga og ég minnist þess t.d. að á Kirkjubæjarklaustri, þar sem var aðalfundur Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, þá lýsti ég mjög gagnort minni skoðun á því hvernig ríkisvaldið ætti að standað að þessu.
    Það hefur komið hér fram. Nú liggur fyrir þetta frv. sem í hverri einustu grein er samkvæmt vitund og vilja Sambands ísl. sveitarfélaga og yfirfarin af fulltrúum nokkurra stórra sveitarfélaga í landinu líka. Ég tel þess vegna að hægt sé að svara þeirri spurningu sem hv. þm. varpaði til mín um það hvort ég treysti mér til að lýsa því yfir að sveitarfélögin færu að hrinda af stað framkvæmdum á grundvelli þessa frv. einungis þannig: Verði þetta frv. að lögum þá er ljóst að þau hafa grundvöll og stökkbretti til að fara í þessar framkvæmdir. Sumi þeirra hafa lýst því yfir. Ef það verður ekki að lögum þá get ég engu um það svarað. Ef málið fær ekki framgang á þinginu þá dregur það mjög úr framkvæmdavilja vegna þess að þetta er hvatinn sem þarf til þess að þau fari í þetta. Það er vitaskuld alveg ljóst. ( JÁ: Hvati?) Hvati. Fjárhagslegur hvati. Ég veit að hv. þm. sem hefur hvað eftir annað orðið ber að örgustu frjálshyggju í markaðslegum skilningi skilur hvað er efnahagslegur hvati.