Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 00:22:59 (4683)


[00:22]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu en ég fagna því að þetta frv. er komið fram og þó fyrr hefði verið. Ég tek undir þá gagnrýni sem fram hefur komið hjá þeim hv. þm. sem hér hafa talað að frv. er nokkuð seint fram komið.
    Hæstv. ráðherra vitnaði í stefnu ríkisstjórnarinnar um stuðning hennar við úrbætur í fráveitumálum sveitarfélaga á kjörtímabilinu og einmitt vegna þessara yfirlýsinga sem liggja fyrir í hvítu bókinni, Velferð á varanlegum grunni, hafa sveitarstjórnarmenn öðru hverju komið fyrir fjárln. og rætt við þingmenn, í það minnsta í Suðurlandskjördæmi, og spurt eftir framgangi þessa máls og það hefur orðið fátt um svör. Síðan segir m.a. í greinargerðinni í stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum sem sett er fram í riti undir heitinu Á leið til sjálfbærrar þróunar, mars 1993:
    ,,Verið er að ljúka úttekt á fráveitumálum í sveitarfélögum landsins og unnið er að stefnumörkun um úrbætur. Stuðlað verður að því að framkvæmdir í frárennslismálum verði hafnar um land allt ekki síðar en árið 1995.``
    Miðað við þessa yfirlýsingu og yfirlýsinguna í hvítu bókinni og þær yfirlýsingar sem komu frá hæstv. ráðherra á fundi sveitarstjórnarmanna austur á Klaustri og síðan Sambands ísl. sveitarfélaga á Akureyri hefði manni þótt það eðlilegt að frv. hefði komið fram áður en fjárlög fyrir árið 1995 væru afgreidd. Hér er um það að ræða að setja í þetta um 200 millj. sem vissulega er kannski lág upphæð en ég tel miðað við þær umsóknir sem ég hef séð frá sveitarfélögunum þá sé hún nokkuð góð til að byrja með, svo að ég hrósi hæstv. ráðherra aðeins.
    En ég vil líka benda á það, af því að hv. þm. Jóhann Ársælsson var að vitna í orð fyrrv. hæstv. umhvrh. varðandi einmitt fráveitumál, mig minnir að það hafi komið fram þegar hann svaraði fyrirspurn frá hv. þm. um kostnað vegna fráveitumála að hann væri á bilinu 7 til 8 milljarðar. Hann er hins vegar samkvæmt greinargerð þessa frv. 15 til 20 milljarðar og að stórum hluta er þar um að ræða skuldbindingar sem verður að standa við vegna aðildar okkar að EES-samningum. Við vorum með sömu kröfur í gildandi lögum en á meðan við höfðum fullt sjálfræði en þurftum ekki að sækja heimildir til Brussel, m.a. vegna fráveitumála sveitarfélaga, þá gátum við veitt undanþágur en það verður ekki eins auðvelt nú eftir að við höfum samþykkt þennan EES-samning.
    Ég vil sérstaklega fagna seinni hluta 4. gr. frv. þar sem tekið er á kostnaði hjá smærri sveitarfélögum landsins því að þær fráveituframkvæmdir sem þessi litlu sveitarfélög þurfa að fara í eru mjög viðamiklar og dýrar og þetta mun vissulega koma þeim til góða.
    Hæstv. ráðherra nefndi hér að það væri möguleiki á því að afgreiða þetta frv., þinginu á að ljúka á laugardaginn, en hann nefndi það jafnframt að líklega færi þetta frv. til umhvn. Ég vil spyrja af hverju það fer ekki til félmn. Fljót afgreiðsla í hv. umhvn. er um það bil tveggja ára umfjöllun um hvert frv. þannig að

það er þá lítil von til þess að fá þetta frv. afgreitt á örfáum dögum. Þar hafa að vísu verið viðamikil lagafrumvörp til umfjöllunar en þau hafa líka verið lögð fram og verið til umfjöllunar í eitt, tvö og þrjú ár áður en þau hafa hlotið samþykki Alþingis. Og illa líst mér á ef þetta frv. þarf svo langa umfjöllun.
    En það er eitt sem ég rek mig líka á í þessari greinargerð og langar til að spyrja hæstv. ráðherra. Þar stendur:
    ,,Stuðningur ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga er hluti af fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Eðlilegt er að fjallað verði um stuðning ríkisins við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum með hliðsjón af öðrum fjárhagslegum samskiptum og ef á þeim verða gerðar breytingar.``
    Hvað þýðir þessi setning? Er strax þarna verið að draga úr þeirri upphæð sem nefnd er í frv. þar sem við vitum hver kostnaðurinn er við framkvæmdirnar sem er verið að tala um að fara í á tíu árum? Hvers vegna er þessi setning komin þarna inn? Við vitum að það stendur til að færa grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Við vitum að hæstv. félmrh. lýsti því yfir fyrir nokkru síðan á málþingi um málefni fatlaðra að það er stefnt að því að færa þann málaflokk líka alveg yfir til sveitarfélaganna ef þessi hæstv. ríkisstjórn sem nú er, ef svo ólukkulega fer að hún verður hér á næsta kjörtímabili líka, þá mun verða stefnt að því að færa málefni fatlaðra líka yfir til sveitarfélaganna. Er það þá þannig að þetta verði hluti af einhverjum stórum heildarpakka og má þá ekki treysta því sem í frv. stendur sem mér finnst skipta verulegu máli?
    Ég hef fylgst með vinnslu þessa frv. í gegnum nokkra sveitarstjórnarmenn sem hafa haft sérstakan áhuga á því að koma fráveitumálum sveitarfélaganna í lag og fá fram þátttöku ríkisins og ég veit að Samband ísl. sveitarfélaga er hlynnt þessu frv. og ég tel að ef ekki koma fram verulegir vankantar við skoðun í nefnd við fyrstu sýn þá ætti að vera möguleiki á því að ljúka afgreiðslu fyrir þinglok. Annað eins hefur nú gerst á hv. Alþingi.